Bann við umskurði stúlkna

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:29:18 (4581)

2002-02-13 19:29:18# 127. lþ. 77.21 fundur 419. mál: #A bann við umskurði stúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:29]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka ráðherranum kærlega fyrir svör hans. Við berum auðvitað ábyrgð hvert á öðru í þessum heimi og þetta mál varðar okkur öll. Við eigum auðvitað að beita öllum þeim ráðum sem við getum til að koma þessum stúlkum til hjálpar og þessum konum. Hér er um að ræða gróft ofbeldi sem fer leynt og er, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, óheimilt samkvæmt ýmsum lögum sem nú þegar gilda á Íslandi.

En ég tel fulla ástæðu til þess, og mér heyrðist það á þeim sem tóku hér til máls, að tekið verði sérstaklega á þessu. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki tilbúinn að beita sér fyrir því í ríkisstjórn að þeir ráðherrar sem þetta mál varðar taki málið upp sérstaklega þannig að það verði ákveðin yfirlýsing frá Íslendingum um að við munum aldrei líða þetta. Við lítum á þetta sem refsivert athæfi. Þetta er stórt heilbrigðisvandamál kvenna sem við mundum mótmæla með lagasetningu um að slíkt verði aldrei liðið hérna.

Eins og ég kom inn á í ræðu minni erum við að verða fjölmenningarlegt samfélag. Það eiga auðvitað að vera skilaboð til allra sem koma hingað að þetta verði aldrei liðið á Íslandi og við munum berjast fyrir því að það verði ekki liðið í heiminum.

Ég vonast til þess, herra forseti, að hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því í ríkisstjórninni og ræða um það við aðra ráðherra sem málið varðar að þetta verði tekið sérstaklega fyrir.