Óhefðbundnar lækningar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:37:55 (4584)

2002-02-13 19:37:55# 127. lþ. 77.22 fundur 462. mál: #A óhefðbundnar lækningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:37]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hefur beint til mín fyrirspurn um óhefðbundnar lækningar þar sem hann óskar m.a. upplýsinga um umfang og árangur þeirra, einnig áætlun um hve miklum fjármunum starfsemi þessi veltir á ári og um mat mitt á lækningunum, um eftirlit með þeim og hugsanlega löggjöf.

Vegna þessarar fyrirspurnar leyfi ég mér að geta þess að fyrir þinginu liggur till. til þál. um stöðu óhefðbundinna lækninga sem borin er fram af þingmönnum úr öllum flokkum. Í tillögunni er m.a. gert ráð fyrir að heilbrrh. verði falið að skipa nefnd til að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi og bera saman við stöðu mála annars staðar í nágrannalöndunum auk þess sem nefndin ætlaði að kanna sérstaklega ýmsa afmarkaða þætti þessa máls. Heilbr.- og trn. hefur nú þessa tillögu til umfjöllunar.

Ég tel jákvætt að þessi mál verði skoðuð frekar. Þau hafa verið hér til umræðu af og til undanfarin ár og ýmsir þættir þeirra hlotið viðurkenningu að hluta til, svo sem hnykklækningar og nálastunguaðferðir að vissu marki. Mín skoðun er sú að gera verði þær kröfur til óhefðbundinna lækninga að þær séu sannanlega ekki skaðlegar, að ekki sé haldið fram ósönnuðum áhrifum þeirra til lækningar eða líknunar, að fólk sem leitar þessara lækninga sé ekki haft að féþúfu og að þeir sem þetta bjóða villi ekki á sér heimildir.

Mér er vel kunnugt um að landlæknisembættið hefur þurft að vera vel á verði gagnvart ýmsum þáttum sem tengjast óhefðbundnum lækningum og landlæknir hefur jafnvel þurft að beita krafti embættis síns til að stemma stigu við og stöðva sumt sem boðið hefur verið fram undir merkjum óhefðbundinna lækninga. En í ljósi þess að fram undan er nefndarvinna og úttekt á stöðu þessara mála, sem ég mæli með, tel ég ekki forsendur til að svara að svo komnu máli nákvæmar ýmsum spurningum sem hv. þm. beinir til mín en vænti þess að staða þessara mála skýrist enn frekar að lokinni þeirri nefndarvinnu sem ég hef áður getið um að er í uppsiglingu ef tillögur þær sem eru um málið í þinginu verða samþykktar og þá hef ég hug á því að skipa nefnd í þá vinnu sem áður er getið um þetta mál.