Óhefðbundnar lækningar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:41:37 (4586)

2002-02-13 19:41:37# 127. lþ. 77.22 fundur 462. mál: #A óhefðbundnar lækningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:41]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna þeim jákvæða tóni sem var í ræðu hæstv. heilbrrh. í garð þeirrar till. til þál. um stöðu óhefðbundinna lækninga sem liggur fyrir þinginu og er einmitt til afgreiðslu í hv. heilbrn. um þessar mundir.

Það er alveg ljóst að hér eru stundaðar óhefðbundnar lækningar. Í sjálfu sér má segja að þær séu sjálfsagður þáttur í heilsuvernd nútímamannsins. Verulegu máli skiptir að vitað sé hvaða greinar er verið að stunda og að möguleiki sé fyrir heilbrigðiskerfið að eiga þar einhverja aðkomu. Við getum einungis tekið á málum af alvöru þegar við erum búin að kortleggja stöðuna og gera okkur grein fyrir hvað við viljum að verði skoðað í þessum efnum.

Þess vegna tel ég mjög brýnt að tillagan verði afgreidd úr heilbrn. hið fyrsta þannig að Alþingi geti á þessu vori gengið svo frá málum að sú könnun sem tillagan lýtur að verði framkvæmd.