Náttúruminjar á hafsbotni

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:54:27 (4594)

2002-02-13 19:54:27# 127. lþ. 77.23 fundur 437. mál: #A náttúruminjar á hafsbotni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:54]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Fjeldsted hefur beint til mín fsp. í tveimur liðum, í fyrsta lagi:

,,Er merkar náttúruminjar að finna á hafsbotni umhverfis Ísland sem ef til vill bæri að friða?``

Því er til að svara að með nýjum lögum um náttúruvernd, sbr. lög nr. 44/1999, var gildissviði náttúruverndarlaga breytt. Ná þau nú yfir landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Þau voru ekki svo víðfeðm áður. Enn sem komið er hefur Náttúruvernd ríkisins ekki skráð sérstaklega minjar á hafsbotni á náttúruminjaskrá, en þar er þó að finna eyjar ásamt aðliggjandi hafsvæði. Einnig ber að nefna að strandsvæði, t.d. við Eyrarbakka og Stokkseyri, eru skráð en þau hafa mikið verndargildi. Vitað er að umhverfis Ísland eru nokkur þekkt kóralsvæði og einnig eru til upplýsingar um jarðhitasvæði í sjó.

Samkvæmt áðurnefndum lögum skal umhvrh. eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið allt. Unnið er að fyrstu náttúruverndaráætluninni og verður henni lokið á yfirstandandi ári og hún lögð fyrir Alþingi í haust. Þótt hún muni væntanlega ekki taka til þeirra mála sem hér eru til umræðu svo heitið geti er ljóst að á komandi árum verður það hlutverk náttúruverndaráætlana að taka á náttúruminjum á hafsbotni. Í náttúruverndaráætlun skulu vera sem gleggstar upplýsingar um náttúruminjar, þ.e. náttúruverndarsvæði og lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem ástæða þykir til að friðlýsa.

Nú þegar er búið að friðlýsa, á grundvelli nýju laganna, fyrsta svæðið í sjó. Það eru þessar hverastrýtur sem getið var um. Það var gert 12. mars á síðasta ári. Þær eru á botni Eyjafjarðar og umhvrh. friðaði þær í samráði við hæstv. sjútvrh. Þar er m.a. bannað að vera með netalagnir, togveiði, að kasta akkerum o.s.frv. Vegna þessa sem hér kom fram áðan er hins vegar rétt að taka fram að Hafrannsóknastofnun hefur á sínum snærum rannsóknir á áhrifum veiðarfæra, t.d. á botn og lífríki botnsins.

Annar liður spurningarinnar er svohljóðandi:

,,Eru fleiri staðir á hafsbotni umhverfis landið friðaðir en hluti botns Eyjafjarðar?

Því er til að svara að svo er ekki. Í þessu sambandi má þó benda á Ramsar-svæðið Grunnafjörð, sem var verndað fyrir nokkrum árum, þar sem leirurnar koma upp þegar fjara er. Svæðið nýtur þar af leiðandi ákveðinnar verndunar. Einnig má benda á Breiðafjarðarsvæðið sem hefur verið verndað með lögum frá 1995 en þar er ekki tekið sérstaklega fram að verndunin nái til botnsins.