Náttúruminjar á hafsbotni

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:57:33 (4595)

2002-02-13 19:57:33# 127. lþ. 77.23 fundur 437. mál: #A náttúruminjar á hafsbotni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:57]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir þessa fyrirspurn og ráðherranum fyrir svörin. Þetta er mjög merkileg fyrirspurn og umræða.

Það að kanna náttúruminjar á hafsbotni getur haft mjög mikið aðdráttarafl, t.d. fyrir ferðaþjónustuna. Ég þekki að það hefur verið mjög vinsælt að fara í köfunarleiðangra og skoða ýmislegt á hafsbotni, bæði rústir við Grikkland og sömuleiðis skipsflök víða í Karíbahafinu. Ég þekki það sjálf, en ég fór með stóra hópa þegar ég var á árum áður leiðsögumaður á annan áratug bæði að stóra kóralrifinu í Ástralíu, þar sem við fórum í litlum kafbáti með fjöldann allan af íslenskum ferðamönnum að skoða þetta. Þetta er mjög merkilegt. Við Kenýa, í Indlandshafinu, eru síðan stór svæði friðuð þar sem eru kórallar og sjávarlíf sem er engu líkt og dregur að þúsundir ferðamanna á hverju ári. Ég tel að við gætum lært af því og boðið hér upp á mjög merkilega ferðaþjónustu.