Náttúruminjar á hafsbotni

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 20:02:35 (4599)

2002-02-13 20:02:35# 127. lþ. 77.23 fundur 437. mál: #A náttúruminjar á hafsbotni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[20:02]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið um kóralsvæði á hafsbotni tel ég eðlilegt að hæstv. sjútvrh. svari meiru um það vegna þess að Hafrannsóknastofnun fellur undir ráðuneyti hans og þar er unnið að þessum rannsóknum. Það er líka gert í einhvers konar norrænu samstarfsverkefni en ég tel þessar rannsóknir vera mjög mikilvægar vegna þess að við vitum ekki nógu mikið um hafsbotninn.

Hv. þm. Katrín Fjeldsted kom inn á þetta og hvatti ráðherrann til að athuga hvort náttúruverndaráætlunin gæti tekið til þessa strax í upphafi. Ég efast um að hægt sé að gera kröfur um það vegna þess að við vitum bara ekki nóg um hafsbotninn til að geta sett einhver svæði inn á að mati þeirra sem vel til þekkja á þessum tímapunkti. Við hljótum að þurfa að vita meira um botninn áður en við getum farið að taka út einhver svæði.

Náttúruverndaráætlunin mun bráðlega líta dagsins ljós í fyrsta sinn, á yfirstandandi ári, og hún mun ekki verða fullkomin þegar hún kemur fram, alls ekki. Hún verður í sífelldri mótun og endurskoðun í framtíðinni þannig að ég held að kannski sé hæpið að gera kröfur til þess að heildstætt verði tekið á þessum atriðum í þessari yfirvofandi náttúruverndaráætlun.

Varðandi það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði um Breiðafjörðinn er ekki sérstaklega skilgreint hvernig friðun á botninum er en ég býst við að ansi mikið þyrfti að skoða ef friðunin ætti að ná til botnsins, a.m.k. með mjög ströngum hætti, því að auðvitað er veitt í Breiðafirðinum. Það er hins vegar alveg bannað að vera með línulagnir, netaveiðar eða togveiðar á svæðinu í Eyjafirði sem við friðuðum út af strýtunum þar.