Merking matvæla

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 20:05:00 (4600)

2002-02-13 20:05:00# 127. lþ. 77.24 fundur 446. mál: #A merking matvæla# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[20:05]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Á þskj. 715 er fsp. frá Katrínu Andrésdóttur, hv. varaþm. Samfylkingarinnar á Suðurlandi, til umhvrh. um merkingu matvæla. Rökstuðningur hennar fyrir fsp. er þessi:

Erfðabreyttar lífverur hafa verið umdeildar frá upphafi. Hér skal hvorki lagður dómur á nytsemi þeirra né skaðsemi þó að minnt sé á að skaðleysi þeirra hafi ekki verið sannað.

Hinn 1. sept. 1998 gekk í gildi ný reglugerð Evrópusambandsins um merkingar á erfðabreyttum sojabaunum, erfðabreyttum maís og afurðum. Í grundvallaratriðum á að merkja allar vörur sem nýtt erfðaefni eða nýtt prótein úr erfðabreyttum sojabaunum eða maís mælist í. Þarna er um að ræða fjölmargar tegundir unninna matvæla svo sem kex, alls kyns snakk, barnamat, sósur, súpur, kökuduft, sojakjöt, sælgæti og margt fleira. Einnig má nefna hnetur, jarðarber, sólblómaolíu, kúrbít, kartöflur, kartöflumjöl og þar með fleiri unnar vörur, ekki síst tómata og unnar vörur úr þeim. Ekki þarf að merkja maís- eða sojaolíu eða aðrar vörutegundir úr erfðabreyttum maís- eða sojaafurðum sem ekki innihalda prótein.

Íslenskir neytendur sjá því merkingar núna um erfðabreytt hráefni í ýmsum innfluttum matvælum frá Evrópusambandsríkjum. Ekki er gerð krafa um merkingar erfðabreyttra matvæla í Bandaríkjunum og þess vegna eru engar slíkar merkingar á bandarískum vörum.

Á ráðstefnu um erfðabreytt matvæli sem haldin var 9. mars 2000 sagði Jón Gíslason, þáv. forstöðumaður matvælasviðs Hollustuverndar, með leyfi herra forseta:

,,Hér á landi hefur ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur lýst sig fylgjandi merkingum á erfðabreyttum matvælum og af hálfu Neytendasamtakanna hefur komið fram að neytendur eigi að fá upplýsingar um hvort vara er erfðabreytt í samræmi við þetta. Reglugerðir Evrópusambandsins eru í drögum. Í reglugerð um nýfæði eru gerðar kröfur um merkingar á umbúðum fyrir erfðabreytt matvæli og eru drög þessi nú til umfjöllunar í umhverfisráðuneytinu.`` --- Þetta var sem sagt 9. mars 2000.

Herra forseti. Ég vil því spyrja hæstv. umhvrh. hvað líði umræddri reglugerð um merkingar matvæla sem eru eða innihalda afurðir erfðabreyttra lífvera.

Ég vil einnig spyrja hæstv. umhvrh. hvort hún vilji beita sér fyrir því að sett verði reglugerð um upprunamerkingar grænmetis og kjötvara.

Neytandi sem vill velja sér hollmeti úr grænmetisborði verslunar hefur í dag sjaldnast upplýsingar um uppruna grænmetis. Margir vilja vita hvort varan er innlend eða erlend, sumir vilja fá vöru af ákveðnum svæðum landsins eða frá ákveðnum framleiðanda. Mér þykir því sem neytanda sjálfsögð réttlætiskrafa að geta valið grænmeti eftir uppruna og framleiðsluaðferðum. Í dag eru allar kjúklingaafurðir samkvæmt reglugerð merktar með sérstöku rekjanleikanúmeri og hægt er að rekja vænginn aftur í útungunarvél. Þetta er matvælaeftirlitinu mikilvægt hjálpartæki.

Herra forseti. Upprunamerkingar grænmetis og kjötvara hafa í raun þríþættan tilgang, að tryggja rétt neytanda um upplýst val, auka gegnsæi í framleiðslu og auka þannig eftirlit, og veita framleiðendum jákvætt aðhald.