Meginreglur umhverfisréttar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 20:23:58 (4608)

2002-02-13 20:23:58# 127. lþ. 77.25 fundur 450. mál: #A meginreglur umhverfisréttar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[20:23]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Vegna þeirrar fyrirspurnar sem hér er fram komin er því til að svara að í almennum athugasemdum með frv. til laga um meginreglur umhverfisréttar sem lagt var fram á 122. löggjafarþingi og hlaut ekki afgreiðslu og var ekki mælt fyrir heldur eins og hér kom fram, kemur fram að með frv. sé lagt til að lögfestar verði helstu meginreglur í umhverfisrétti, þ.e. reglan um réttindi og skyldur einstaklinga, varúðarreglan, mengunarbótareglan og reglan um mat á umhverfisáhrifum. Tilgangur með lögfestingu þessara meginreglna sé einkum að tryggja að við framkvæmd og skýringu laga verði þær ávallt hafðar að leiðarljósi. Þannig stuðli þær að því að þegar teknar eru ákvarðanir um hvers konar framkvæmdir, er áhrif geta haft á umhverfið, verði gætt að hag umhverfisins og þar með staðinn vörður um rétt almennings til heilnæms og farsæls umhverfis.

Í stað þess að festa meginreglurnar í sérlög höfum við haft þær að leiðarljósi við samningu laga og reglna á sviði umhverfisréttar í tengslum við þau viðfangsefni sem eru til skoðunar hverju sinni. Ég tel að markmiði frv. til laga um meginreglur sem áður er lýst sé ágætlega náð með þessum hætti þar sem meginreglurnar eru þannig mótaðar að því laga- og reglugerðarumhverfi sem fyrir er, sem aftur tryggir að þær eru viðhafðar í framkvæmd.

Á þessu sjónarmiði hefur verið byggt við setningu laga og reglna á sviði umhvrn. Má þar nefna m.a. lög um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, nr. 21/1993, og lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Í þessum lögum felast meginreglurnar um réttindi og skyldur einstaklinga og mat á umhverfisáhrifum, eins og þeim er lýst í frv. til laga um meginreglur umhverfisréttar.

Einnig vil ég benda á lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, en í 1. gr. þeirra laga eru undirstrikuð réttindi einstaklings til heilnæms og ómengaðs umhverfis.

Í frv. til laga um verndun hafs og stranda sem var lagt fram á Alþingi nýlega er að finna ákvæði um að mengunarvaldur sé ábyrgur fyrir bráðamengunartjóni þótt tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans eða starfsmanna hans, sé um að ræða mengun af völdum flutnings á olíu, eiturefnum eða hættulegum efnum eða atvinnustarfsemi sem talin er upp í fylgiskjali með frv. og getur valdið mengun hafs og stranda. Hér er um að ræða hlutlæga bótaábyrgð eins og mengunarbótareglan gerir ráð fyrir.

Ég vil einnig nefna frv. sem unnið er að í umhvrn. um meðhöndlun úrgangs sem byggir á tilskipun Evrópusambandsins 1999/31/EB, um urðun úrgangs, en þar er mælt fyrir um gjaldtöku vegna meðhöndlunar úrgangs, þar sem mengunarbótareglan er höfð til hliðsjónar.

Virðulegur forseti. Það er hægt að lögfesta meginreglurnar í sérlögum. Það er líka hægt að lögfesta þær með því að samþætta þær inn í aðra löggjöf. Seinni kosturinn hefur orðið fyrir valinu enn sem komið er.