Meginreglur umhverfisréttar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 20:29:00 (4610)

2002-02-13 20:29:00# 127. lþ. 77.25 fundur 450. mál: #A meginreglur umhverfisréttar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[20:29]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé mjög umdeilanlegt hvor leiðin sé einfaldari og hraðvirkari. Lagaumhverfi okkar og reglugerðarumhverfi er þannig að það er bara frekar ólíklegt að mínu mati að það sé eitthvað hraðvirkara að lögfesta hér þessar meginreglur. Mér skilst, alla vega samkvæmt þeim upplýsingum sem við leituðum að á þarsíðasta ári úr ráðuneytinu, að ekki sé að finna slíka löggjöf í nágrannalöndum okkar eins og hér er lagt til, þ.e. að meginreglurnar eru ekki skráðar í sérstök lög. En þar fór reyndar ekki fram tæmandi upplýsingaöflun.

Við höfum valið þá leið að samþætta meginreglurnar inn í okkar lög og þegar við erum að endurskoða lög þá höfum við þær til hliðsjónar. Ég las upp áðan fjölmargar sannanir þess að við höfum gert það í ýmsum lögum sem hér hafa verið sett á sviði umhverfismála. Við höfum því ekki valið þá leið að setja þessar reglur í sérlagabálk, en síðan ekki inn í hver einstök lög. Ég tel að þetta sé ágætisaðferð sem við höfum notað.

Varðandi það hvað við erum komin langt þá er nú kannski erfitt að svara því beint í einhverjum mælieiningum. Þó er hægt að benda á þau lög sem voru talin upp í fyrra svari mínu. Ég lýsi því hér yfir að við munum auðvitað hafa þessar meginreglur til hliðsjónar við aðra lagasetningu, enda eru þær sjálfsagðar. Allir eru sammála um þessar reglur. Allir vilja viðhalda varúðarreglunni og vilja viðhalda reglunni um réttindi og skyldur einstaklinga, mengunarbótareglunni og reglunni um mat á umhverfisáhrifum. Það er ekkert umdeilt, tel ég, í dag og það sýnir hvað við erum komin langt í umhverfismálunum í heiminum almennt.