Uppsagnir á Múlalundi

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 10:43:04 (4614)

2002-02-14 10:43:04# 127. lþ. 78.91 fundur 338#B uppsagnir á Múlalundi# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[10:43]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hóf SÍBS rekstur Múlalundar árið 1959 og er því elsta og jafnframt stærsta vinnustofa öryrkja á Íslandi. Í fyrstu var vinnustaðurinn ætlaður til endurhæfingar berklasjúklingum en með fækkun þeirra þróaðist Múlalundur í almenna vinnustofu öryrkja með blandaða fötlun. Vinnustaðurinn hentar því fólki með skerta starfsorku þar sem um léttan iðnað er að ræða og vinnutími getur verið sveigjanlegur.

SÍBS hefur orðið fyrir verulegum útgjöldum vegna reksturs Múlalundar undanfarin þrjú ár. Á þessum árum hefur SÍBS reynt að fá leiðréttingu á samningi við félmrn. en hið opinbera greiðir nú fyrir 15 stöðugildi öryrkja og SÍBS hefur tekið á sig þær launagreiðslur sem út af standa, þ.e. fyrir 12 stöðugildum. Beiðni um að samningnum verði breytt til samræmis við raunveruleg stöðugildi öryrkja á Múlalundi, þ.e. að fjölga þeim úr 15 í 27, hefur ekki verið sinnt og nú er svo komið að SÍBS treystir sér ekki lengur til að taka frekari hallarekstur á sig og hefur sagt upp fólki.

Félmrn. greiddi á síðasta ári sem svarar 9,8 millj. kr. í launagreiðslur en leiða má líkur að því að sparnaður ríkissjóðs yrði ekki mikill ef til þess kæmi að þeim starfsmönnum sem eru öryrkjar yrði sagt upp í stað þess að greiða fyrir 12 stöðugildi til viðbótar. Ríkissjóður hefur um 4 millj. kr. skatttekjur af launum öryrkjanna, sparar greiðslur vegna tekjutryggingar þessara starfsmanna auk þess sem hann fær greiddan virðisaukaskatt af starfseminni. Vinnustaðurinn er meira en launagreiðandi, félagslegi þátturinn er jafnvel enn þá mikilvægari og hvaða áhrif hefðu uppsagnir á aðra þætti félags- og heilbrigðisþjónustunnar?

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að leiðrétta stöðu SÍBS vegna öryrkjavinnustofunnar rétt eins og rekstur Rauða krossins vegna sjúkrahótelsins. Við getum ekki komið rekstrarlegri ábyrgð velferðarkerfisins yfir á félagasamtök. Tryggja verður áframhaldandi rekstur Múlalundar og því til viðbótar þarf að vinna að úrbótum fyrir þá öryrkja sem eru atvinnulausir.