Uppsagnir á Múlalundi

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 10:47:28 (4616)

2002-02-14 10:47:28# 127. lþ. 78.91 fundur 338#B uppsagnir á Múlalundi# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[10:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þann 22. ágúst í fyrra var hæstv. félmrh. varaður við og upplýstur um grafalvarlega stöðu Múlalundar, öryrkjavinnustofu SÍBS. Óskað var eftir viðræðum við ráðherra vegna þessa sem hann varð ekki við. Það er ótrúlegt sinnuleysi gagnvart alvarlegri stöðu Múlalundar.

SÍBS hefur greitt með rekstrinum en tap á honum er um 40--50 millj. kr. síðastliðin fimm ár og nú stefnir í 30 millj. kr. rekstrarvanda vegna síðasta árs --- 30 millj. kr. sem SÍBS hefði ella greitt til uppbyggingar á endurhæfingaraðstöðu á Reykjalundi.

Á Múlalundi eru 47 öryrkjar í 50% starfi og 7 í fullu starfi. 50 öryrkjar eru á biðlista eftir starfi þar. Í bréfi til ráðherrans í ágúst segir að SÍBS muni ekki geta haldið rekstrinum áfram mikið lengur. Málefni Múlalundar eru því í algeru uppnámi. Ljóst er að fjárhagsóvissa yfir 52 öryrkja og fjölskyldna þeirra er mikil nú þegar uppsagnir vofa yfir. Sömuleiðis félagsleg einangrun. Hálfsdagsfólkið eru örykjar sem vinna upp í frítekjumarkið, fyrir rúmar 30 þús. kr. á mánuði --- fólk sem fær lítið eða ekkert úr lífeyrissjóði. Fyrir öryrkja á strípuðum bótum munar tilfinnanlega um þessa upphæð á mánuði. Þeir fá lítið og jafnvel ekkert frá Tryggingastofnun ef þeir missa vinnuna og þurfa þá að framfleyta sér og jafnvel fjölskyldum sínum á 60--70 þús. kr. á mánuði.

Hvað hyggst ráðherra gera? Hér koma engin svör. Mun koma til uppsagna? Við þeirri spurningu koma engin svör. Mun ríkið koma að rekstrinum, en ríkið greiðir aðeins fyrir 15 stöðugildi af þeim 27 sem um er að ræða? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að leysa þennan vanda? Vegna orða ráðherrans vil ég segja að það er fötlun að geta ekki starfað eins og fullfrískt fólk, hvort sem menn hafa leitað eftir þjónustu frá svæðisskrifstofu eða ekki. Annað er útúrsnúningur.