Uppsagnir á Múlalundi

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 10:54:31 (4619)

2002-02-14 10:54:31# 127. lþ. 78.91 fundur 338#B uppsagnir á Múlalundi# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[10:54]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Múlalundur er mjög merkilegur vinnustaður og einn anginn af merkilegu starfi og starfsemi SÍBS. Um leið er Múlalundur og starfsemin þar afar viðkvæm. Einhvers staðar stendur að vinnan göfgi manninn og hinn félagslegi þáttur vinnunnar er ómetanlegur, bæði fyrir heilbrigða og einnig fyrir fatlaða. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að tryggja starfsöryggi þess fatlaða fólks sem þarna vinnur.

Við megum ekki gleyma því að við leysum ekki mál eins og vandamál Múlalundar með utandagskrárumræðu sem þessari. Hins vegar treysti ég hæstv. félmrh. og stjórnendum Múlalundar til að tryggja starfsöryggi þeirra sem þar vinna. Eins og reyndar kom fram í orðum hæstv. félmrh. ætlar hann sér, í framhaldi af úttekt á starfsemi Múlalundar, eins og hann orðaði það, ekki að liggja á liði sínu við að tryggja þessa starfsemi. Eins og margoft hefur komið hér fram er það mjög brýnt og nauðsynlegt og ég treysti hæstv. félmrh. afar vel til þess.