Uppsagnir á Múlalundi

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 10:56:11 (4620)

2002-02-14 10:56:11# 127. lþ. 78.91 fundur 338#B uppsagnir á Múlalundi# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[10:56]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Vinnustaðurinn fyrir fatlaða á Múlalundi er stærsti vinnustaður landsins fyrir fólk með skerta starfsgetu en þar vinna allt að 100 starfsmenn yfir árið, flestir í 50% starfi. Stærsti hluti þessara starfsmanna eru geðfatlaðir og þroskaheftir og vegna orða hæstv. ráðherra áðan vil ég taka fram að geðfatlaðir leita yfirleitt ekki til svæðisskrifstofa.

Þetta fólk á yfirleitt ekki kost á vinnu á almennum vinnumarkaði og er þetta úrræði því ákaflega mikilvægt fyrir viðkomandi einstaklinga. Auk þess hefur fyrirtækið framleitt mjög frambærilegar vörur. Vegna harðnandi samkeppni á undanförnum árum er nú kominn upp alvarlegur rekstrarvandi og ákveðið hefur verið, eftir ítarlega skoðun, að segja upp öllu starfsfólkinu. Hæstv. félmrh. mun hafa verið gerð grein fyrir þessari alvarlegu stöðu fyrir sjö mánuðum. Ekki er ljóst af hverju ráðuneytið hefur ekki brugðist við þeim upplýsingum.

Í gildi er gamall samningur en mjög ófullnægjandi upp á 8,3 millj. kr. árlegan styrk til vinnustofunnar. Það verður að teljast ámælisvert að hæstv. ráðherra hafi látið þessi mál reka á reiðanum allan þennan tíma og skuli nú bera því við að sér hafi ekki verið ljóst umfang vandans. Ég held að það sé óumdeilanlegt að þótt fyrrnefndur styrkur væri margfaldaður þá væri samt sem áður þjóðfélagslegur ávinningur af rekstri þessa vinnustaðar.

Ég skora á hæstv. ráðherra að leita allra leiða til að finna rekstrargrundvöll svo reka megi vinnustofuna áfram landi og þjóð til heilla og þó einkum þeim til farsældar sem eiga allt sitt undir því að þessi starfsemi verði ekki aflögð. Ég verð að segja að ég heyrði ekki betur á máli hæstv. ráðherra, og það gladdi mig mjög, en að hann ætlaði að tryggja rekstur þessa vinnustaðar til frambúðar.