Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 11:27:23 (4627)

2002-02-14 11:27:23# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[11:27]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Mér þykir mjög leitt, hæstv. forseti, ef hv. þm. er strax búinn að missa stjórn á sér og umræðan er rétt að hefjast. Eins og hv. þm. gerir sér áreiðanlega grein fyrir, ef hann hugsar þetta mál til hlítar, er í þessu frv. ekki hægt að fara nákvæmlega yfir arðsemi Landsvirkjunar. Hins vegar er Landsvirkjun sérstakt fyrirtæki. Það er ekki ríkisfyrirtæki. Landsvirkjun gerir samninga við fyrirtækið Reyðarál um orkukaup og að sjálfsögðu gerir Landsvirkjun ekki þá samninga nema hún fái fullnægjandi niðurstöðu, að þeir samningar greiði þann kostnað sem nú þegar liggur fyrir og farið verður í og að framkvæmdin sé arðbær til frambúðar.

Það er í sjálfu sér ekki hlutverk mitt sem ráðherra að svara fyrir Landsvirkjun í þessu sambandi. Hins vegar hef ég þær skyldur sem ráðherra að sjá til þess að raforkuverð kalli ekki á hækkun raforkuverðs til almennings.