Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 11:31:46 (4632)

2002-02-14 11:31:46# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[11:31]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það væri ástæða til þess að fara nánar ofan í þau andsvör sem þegar eru búin en ég ætla að geyma mér það til ræðu minnar.

Athugasemd mín við ræðu hæstv. ráðherra varðar skipulagsmálin. Það kemur fram í greinargerð með frv. að samkvæmt svæðisskipulagi miðhálendisins til 2015 sé gert ráð fyrir því að svæðið sé orkuvinnslusvæði og gert er ráð fyrir að orkuvinnslugeta þeirrar virkjunar sem þar er tilgreind sé um 3.200 gígavattstundir, flatarmál lónsins geti verið 38 km2 en jafnframt tekið fram að tilhögun virkjunarinnar yrði að vera háð skilyrðum sem sett eru í reglugerð um friðlýsingu Kringilsárrana.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra koma þessu máli í gegn þar sem þetta er í hróplegri andstöðu við svæðisskipulag miðhálendisins? Ætlar hæstv. ráðherra bara að beita pólitískum þrýstingi og valdi til þess að breyta skipulagi miðhálendisins eða hvernig hyggst hún gera það?