Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:14:27 (4653)

2002-02-14 12:14:27# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:14]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eiginlega synd að vera að blanda sér inn í þessa umræðu þar sem stjórnarandstaðan tekst á um málið. En það voru nokkur atriði sem komu fram hjá hv. þm. sem ég vildi bregðast við.

Hann dvelur dálítið við hinn efnahagslega ávinning, hvort hann sé nægilegur o.s.frv., og kallar eftir upplýsingum. Það sem ég get a.m.k. sagt nú þegar er að reiknuð arðsemi yfir 50 ára líftíma mannvirkisins er um einu prósentustigi hærri en reiknaður fjárfestingarkostnaður Landsvirkjunar. Það segir eitthvað þó að ég ætli ekki að fara alveg út í tölur hvað það varðar. Mér finnst full ástæða til þess að iðnn. fái a.m.k. upplýsingar um hvernig farið er í þessa útreikninga þó að kannski verði erfitt að greina frá því í smáatriðum þegar nefndin verður með málið til umfjöllunar vegna þess að, eins og menn vita, endanleg ákvörðun um það hvort farið verður í framkvæmdina verður ekki tekin fyrr en síðar á árinu.

Svo er það í sambandi við þjóðgarð sem hv. þm. talar um og þessa spurningu hvernig landið verði nýtt norðan Vatnajökuls. Hann vitnaði til greinargerðar Orkustofnunar sem gengur út á að fara yfir nánast alla möguleika. Það er það sem Orkustofnun lítur á sem skyldur sínar í störfum sínum, að draga ekkert undan, og þess vegna er Jökulsá á Fjöllum að sjálfsögðu með. Hún er með í rammaáætlun eins og við vitum þannig að það segir ekkert um hvaða pólitíska ákvörðun verður tekin. Það eru alltaf stjórnmálamennirnir sem hafa það vald, hverjir sem verða við stjórnvölinn þegar að því hugsanlega kemur að fara að fikta eitthvað við þá fögru á.

Þetta var sem sagt það sem ég vildi láta koma fram á þessu stigi. Annars þakka ég hv. þm. fyrir ræðuna.