Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:18:31 (4655)

2002-02-14 12:18:31# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:18]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef aldrei útilokað neitt í sambandi við þjóðgarð. Ég er bara dálítið upptekin af þessari virkjun. Svo framarlega sem hún getur orðið að veruleika ætla ég ekki að útiloka að hægt verði að koma fyrir þjóðgörðum. Svæðið er alldrjúgt og stórt svæði verður ósnortið þrátt fyrir að farið verði út í þessa virkjun. Við verðum áfram með stærsta ósnortna víðernið í Vestur-Evrópu þrátt fyrir virkjunina. Það vil ég ítreka hér og ekki að ástæðulausu þó að það hafi ekki komið fram hjá hv. þm.

Hann talar um mikla atvinnusköpun í tengslum við þjóðgarða. Ekki ætla ég að bera á móti því. Ég vil samt að það komi fram að miðað við veðurfar á Íslandi geta ferðamenn notið hinnar fögru náttúru á þessu svæði ákaflega stuttan tíma. Þetta er svo stuttur tími. Það er vandamálið. Þjóðgarður er í sjálfu sér ágætis mál, en miðað við að um sé að ræða tvo mánuði, kannski þrjá, sem virkilega er hægt að fara um svæðið og skapa störf í tengslum við ferðamannaþjónustu þá erum við ekki að tala þar um sama hlutinn og í sambandi við atvinnusköpun í tengslum við Noral-verkefnið. Ég veit að hv. þm. er ekki endilega að bera þetta saman en sumir gera það.