Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:51:50 (4664)

2002-02-14 12:51:50# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:51]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ekki kom byggðastefna ríkisstjórnarinnar fram í þessu svari og ekki mun álver á Austurlandi styrkja byggð á Vestfjörðum. Á þá að koma önnur stóriðja á Vestfjörðum? Hvernig styrkir álver á Reyðarfirði jaðarbyggðina á Austurlandi? Hvernig styrkir hún byggð á Vopnafirði þegar ekki eru jarðgöng undir Hellisheiði á milli Vopnafjarðar og Héraðs og þessa atvinnusvæðis sem tengist álverinu? Þegar við komum svo sunnar, hvernig treystir þetta byggð á Djúpavogi?

Það er þarna ákveðinn kjarni sem vonir standa til að byggð treystist á. Það skapast störf í þessu álveri ef það verður reist og það er byggðastefnan. Ég er ekki að gera lítið úr þeim störfum sem skapast í álverinu, síður en svo. En mér finnst þetta ekki vera sú framtíðarsýn sem ætti að stefna að, hvorki fyrir Austfirðinga né aðra, þ.e. álver eða dauða. Það er ekkert annað. Fólk hefur ekki val. Það stendur frammi fyrir þessum eina valkosti og engu öðru. Engar breytingar eru fyrirsjáanlegar í sjávarútvegsstefnunni. Engar breytingar eru sjáanlegar í landbúnaðarstefnunni. Lítill hugur kemur fram varðandi stuðning við aukningu á frekari úrvinnslu í matvælaiðnaði o.s.frv. Hvað á fólk að gera? Það er ekkert val hjá Austfirðingum og því eru svörin eins og þau eru.