Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:53:46 (4665)

2002-02-14 12:53:46# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:53]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Engin breyting á sjávarútvegsstefnunni, engin breyting á landbúnaðarstefnunni, segir hv. þm. Í þessum greinum hefur fólki fækkað mjög mikið. Gríðarleg hagræðing hefur orðið í fiskvinnslunni eins og við þekkjum öll og hún hefur leitt til stórfækkunar starfa þar. Það er ekki fyrirsjáanlegt að við munum á næstu árum veiða meira en við gerum í dag. Þó að við breyttum sjávarútvegsstefnunni eða kvótakerfinu eru ekki líkur á að fiskveiðiráðgjöfin verði hækkuð, þ.e. að okkur verði heimilað að veiða meira. Það eru ekki líkur á því, því miður, að mikið af störfum sé að fæðast í þeim greinum. Það er frekar að þeim haldi áfram að fækka með aukinni hagræðingu. Fyrirtækin í þeim greinum verða að hagræða til þess að lifa af.

Hv. þm. spyr hvort ég vilji aðra stóriðju á Vestfjörðum. Ég mundi mjög gjarnan vilja það og vona að að því komi að við finnum eitthvert slíkt verkefni fyrir Vestfirðinga.

Svo spyr hv. þm. hvernig þetta álver eigi að styrkja byggð á Djúpavogi og einhverjum fleiri stöðum þarna í kring. Þá ætla ég að segja hv. þm. að álverið á Grundartanga og járnblendiverksmiðjan styrkja byggð um allt Vesturland, alveg vestur í Stykkishólm sem er ekki í neinu skotfæri við þessa starfsemi. Þar eru fyrirtæki sem þjónusta álverið í stórum stíl. Ég veit ekki betur en Skipavík í Stykkishólmi hafi verið að vinna að 100 millj. kr. verkefni nýlega, og munar um minna fyrir slíkt fyrirtæki.

Staðreyndin er líka sú að stóriðjan borgar hærri laun en aðrar greinar að fiskveiðum undanskildum og störf við þessi fyrirtæki eru gríðarlega eftirsótt. Á annað þúsund manns sóttu um störf þegar Norðurál á Grundartanga hóf starfsemi. Meðalstarfsaldur í þessum fyrirtækjum er miklu hærri en gerist og gengur í öðrum atvinnurekstri á Íslandi þannig að ég verð að segja, hæstv. forseti, að þessi endalausa andstaða Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs við stóriðju lyktar svolítið af trúarbrögðum en ekki því að menn vilji líta á staðreyndir.