Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 13:58:07 (4670)

2002-02-14 13:58:07# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. talar um að þora ekki í framkvæmdir. Við erum ekki að tala um neitt smotterí og ég er viss um að hlutfallslega miðað við bara ríkissjóð hefur hvergi á byggðu bóli verið farið í eina framkvæmd sem er í líkingu við þetta. Hér erum við að tala um gríðarlega stóra hluti sem geta haft hræðilegar afleiðingar ef við feilum okkur um eitt einasta prósent. Það ber líka að hafa hugfast.

Varðandi orkuverðið og að ég fari ekki með rétt mál, þetta er bara spurning um hvernig maður lítur á þessa hluti. Það er öllum himinljóst að Landsvirkjun var stofnuð til þess að hægt væri að fóðra stóriðjuna og það hefur augljóslega áhrif á orkuverð í landinu. Það hefur t.d. áhrif á orkuverð í landinu að Rarik er með svona lítið eigið afl. Orkubú Vestfjarða var með lægra orkuverð en á Rarik-svæðinu, fyrst og fremst af því að þeir framleiddu sjálfir 40% af forgangsorku sinni enda réðu þeir yfir Mjólká. Undan Rarik voru teknar allar virkjanirnar inn í þetta púkk.

Það er þannig í lífinu að ef maður er á móti einhverju vill maður gera hlutina öðruvísi eða á annan hátt og það getur vel verið betri lausn. Þannig eru málin. Ef maður vill ekki einhverja hugmynd sem kemur frá andstæðingi hefur maður væntanlega hugmyndir eins og við höfum lagt fram sem byggja á því að gera hlutina öðruvísi. Við viljum fara öðruvísi í þessa atvinnuuppbyggingu, teljum að svona stór högg séu landi og þjóð ekki til framdráttar og muni hafa mjög slæmar hliðarverkanir.