Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 15:27:37 (4693)

2002-02-14 15:27:37# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að hv. 1. þm. Norðurl. e. er mikill áhugamaður um virkjun norðan Vatnajökuls og um að reist verði álver í Reyðarfirði. Þau áform eru sannarlega ekki ný af nálinni eins og hv. þm. veit. Hægt væri að fara áratugi aftur í tímann og líta til sambærilegra hluta.

Nú kom það fram hjá hæstv. iðnrh. í fyrirspurnatíma í gær að ef svo færi að Norsk Hydro hrykki úr skaftinu þyrfti að byrja leikinn upp á nýtt. Þá er málið komið á byrjunarreit. Með vísan til ófaranna í símamálunum vil ég inna hv. þm. eftir því hvort Sjálfstfl. hafi nokkrar töfralausnir á hendi sem Framsfl. hefur ekki í þessum efnum.