Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 15:28:48 (4695)

2002-02-14 15:28:48# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hvílík öfugmæli á þessum síðustu og verstu tímum. Það veit sá sem allt veit að önnur eins uppstytta í stjórnarsamstarfinu hefur ekki fyrr litið dagsins ljós.

En ég vil árétta spurningu mína af því að Austfirðingar, eins og hv. þm. kom hér inn á, bíða margir og vona að úr rætist í atvinnumálum þeirra. Þeir horfa til þess möguleika sem hér er ræddur. Ég endurtek því spurningu mína sem er raunar tvíþætt: Er hv. þm. ánægður með frammistöðu Framsfl. og hæstv. iðnrh. í samningum sínum við Norsk Hydro og allan umbúnað að málinu og hefur Sjálfstfl. einhvern þann töfrahatt sem hægt er að kippa kanínu upp úr ef Norsk Hydro dettur úr skaftinu? Þeir hafa verið erfiðir í taumi eins og kunnugt er.