Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 15:33:34 (4700)

2002-02-14 15:33:34# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í stjórn Landsvirkjunar sitja fulltrúar frá eigendum sem eru ríki, Reykjavíkurbær og Akureyri og auðvitað munu þeir ásamt framkvæmdastjórn Landsvirkjunar fara yfir þá arðsemisútreikninga sem fyrir liggja og taka ákvörðun um hvort ráðist verði í þessa virkjun. Mér finnst alveg ástæðulaust að reyna að halda því fram og alveg órökstutt að þeir menn sem þar sitja fái ekki fullnægjandi gögn og reyni ekki eftir bestu getu að átta sig á stöðunni. Því hefur oft verið spáð að arðsemisútreikningar væru rangir og þar fram eftir götunum þegar ráðist hefur verið í stórvirkjanir. Við getum talað um Búrfellsvirkjun sem dæmi. En í öllum þeim dæmum sem ég þekki hefur málið gengið upp.