Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 15:34:44 (4701)

2002-02-14 15:34:44# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við erum að ræða langstærstu framkvæmd á vegum opinberra og hálfopinberra aðila í sögu Íslands. Það hefur verið vísað í umræðunni í aðrar virkjunarframkvæmdir, að þær hafi verið miklar, en þar er ekki saman að jafna. Hér er um að ræða virkjun fyrir eina verksmiðju, sem er nýmæli í okkar sögu, og fjárfestingarnar samtals sem ber að líta á heildstætt nema 350--400 milljörðum kr. Það er ekkert undarlegt þegar menn standa frammi fyrir slíkum fjárfestingum að þeir vilji staldra við. Og við eigum að staldra við því ekki er nóg með að þessi fjárfesting sé stór, hún er einnig mjög umdeild. Byrjum samt fyrst á því að spyrja hvað menn séu sammála um. Menn eru sammála um að þessar framkvæmdir muni skapa störf. Hve mörg veit enginn með vissu.

Í frv. er reiknað með um 1.000 störfum, 600 við sjálfa verksmiðjuna og um 400 afleiddum störfum. Þetta eru vissulega mörg störf á fámennu atvinnusvæði. En samkvæmt gögnum sem fylgdu þáltill. ríkisstjórnarinnar um Fljótsdalsvirkjun var reiknað með því að stóriðjuáformin mundu hafa áhrif á svæði þar sem nú búa tæplega 8.400 manns og þar sem vinnumarkaður svarar innan við 4.000 ársverkum. Menn deila um hversu heppileg áhrifin yrðu á svo smáan atvinnumarkað og hver tilkostnaðurinn yrði við þessa atvinnusköpun, en um hitt deilir enginn að störfum mundi fjölga.

Hvað annað eru menn sammála um? Menn eru sammála um að stóriðjan kæmi til með að skapa þjóðinni gjaldeyristekjur. Menn bera ekki ál á tún og ekki borðum við ál. Við flytjum ál út úr landinu og við fáum fyrir það gjaldeyri. Því hefur verið haldið fram að útflutningstekjur muni aukast um 14% af þessum sökum. Menn hafa síður staðnæmst við áhrifin af lánsfjárstreymi og afborganir og innflutninginn og að sjálfsögðu þar með viðskiptajöfnuðinn, en því hefur verið haldið fram að innflutningurinn gæti jafnvel vegið upp á móti útflutningnum um nokkurra ára skeið. Og þess má geta að innkaupsverð hráefnis til álframleiðslu, súráls, nemur um fjórðungi af söluverði álsins og þá á eftir að taka tilkostnaðinn við framkvæmdirnar og uppbygginguna.

Áhrifin af þessu eru ekki tíunduð í greinargerðum með frv. Þjóðhagsstofnun víkur að skuldastöðunni eftir 2020, en það er ekki sundurgreint eða farið í saumana á áhrifunum fram að þeim tíma. Þó vitum við að á undangengnum hálfum áratug hefur skuldastaða landsmanna versnað um 50%. Þjóðhagsstofnun vísar hins vegar í nauðsyn þess að grípa til tímabundinna aðgerða til að bregðast við þeim miklu hagsveiflum sem þetta mundi hafa í för með sér, aukinni verðbólgu, hærri vöxtum, og ég segi aukinni verðbólgu í landi sem nú um skeið hefur búið við meiri verðbólgu, fjórðungi meiri verðbólgu en viðmiðunarlönd okkar hafa gert og þá eru ekki komnar til þessar framkvæmdir.

Skort hefur á að litið sé á málin heildstætt. En hvað um það. Menn eru sammála um að þröngt skoðað skapi stóriðjan gjaldeyri. Einnig mun þetta hafa áhrif á hagvöxt. Menn eru líka sammála um það. Hvort það sé eitthvað sem máli skiptir er önnur saga. Og hver hin endanlegu þjóðhagslegu áhrif verða, hvort þau verða jákvæð eða neikvæð, er nokkuð sem menn greinir á um. En hitt eru menn sammála um, að áhrifin á efnahagslífið eru talsverð.

En eitt eru menn sammála um og það er að Kárahnjúkavirkjun mun valda geysilegum náttúruspjöllum. Um þetta deilir enginn. Menn gera mismikið úr þessum náttúruspjöllum en enginn vefengir að þessar verði afleiðingarnar. Það vefengir ekki nokkur maður.

Ef menn eru sammála um þessa þætti, í hverju liggur þá ágreiningurinn? Menn eru sammála um að þetta muni skapa störf, gjaldeyristekjur, þetta muni hreyfa við hagvexti. Menn eru sammála um náttúruspjöllin. En í hverju liggur ágreiningurinn? Hvað veldur þeim miklu deilum sem raun ber vitni? Annars vegar eru þeir sem segja að náttúruspjöllin séu svo mikil, svo stórfelld að við höfum hreinlega ekki leyfi til að ráðast í þessar framkvæmdir. Hins vegar eru þeir sem segja að efnahagslegur ávinningur sé svo mikill að framkvæmdirnar séu réttlætanlegar.

Ef þessu er þannig farið er rétt að staðnæmast við þennan þátt, hinn meinta efnahagslega ávinning. Nú skulum við gefa okkur að við vildum virkja ef okkur væri sýnt fram á að það væri þjóðinni til hagsbóta og út frá því sjónarmiði ætla ég að nálgast þetta viðfangsefni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við ræðum þessa hlið málsins á Alþingi. Hvar var skilið við þetta mál þegar við fjölluðum síðast um efnahagslegar forsendur og arðsemi virkjana? Þá var á Alþingi til umfjöllunar þáltill. um Fljótsdalsvirkjun sem framleiða átti 1.300 gígavattstundir, en það hefði farið langleiðina í að sjá 120 þúsund tonna álveri fyrir raforku. Í tillögunni sem á endanum var samþykkt af meiri hlutanum hér á þingi var gert ráð fyrir að álverið stækkaði í 360 þúsund tonn í öðrum áfanga og síðan hugsanlega í 480 þúsund tonn. Sýnt var að þetta kallaði á miklar virkjunarframkvæmdir, m.a. við Kárahnjúka. En vegna andstöðu við þessi áform, einkum gegn því að fórna Eyjabökkum, var horfið frá þeim og þær áætlanir sem nú eru til umræðu litu dagsins ljós.

Við umræðuna á Alþingi var sú krafa sett fram, m.a. af hálfu okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, að efnahagsleg rök yrðu brotin til mergjar áður en nokkur ákvörðun yrði tekin. Við það tækifæri, við þessa umræðu, lýsti hæstv. þáv. iðnrh. því yfir að ekki yrði ráðist í nokkrar framkvæmdir af hálfu Landsvirkjunar nema sýnt væri að þær skiluðu að lágmarki 5--6% arði af eigin fé sem þá var áætlað um 30% af framkvæmdinni. Ekki nóg með þetta, því jafnframt lýsti ráðherrann því yfir að vegna þessara fyrirhuguðu stórframkvæmda yrði mögulegt að lækka almennt raforkuverð í landinu um 25--30% á næstu tíu árum. Þetta var staðhæft.

Í kjölfar þess að þáltill. um Fljótsdalsvirkjun var samþykkt fengum við að heyra að samningar gengju vel og var þá ítrekað gengið eftir því að fá upplýsingar um raforkuverðið og hvernig staðið yrði við fyrrnefnd fyrirheit. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þau skuli ekki standa. Þvert á móti hefur nú heldur verið bætt í því nú er lofað 14% arðsemi af eigin fé Landsvirkjunar sem áætlað er að verði 25% framkvæmdarinnar.

Lítum á stærðargráðu núverandi áforma. Talað er um 3.850 gígavattstundir fyrir 240 þúsund tonna álver sem ætlað er síðan að stækki í allt að 420 þúsund tonn með raforkuþörf upp á 5.800 gígavattstundir, 4.890 frá Kárahnjúkavirkjun.

Hvaða forsendur þurfa að vera fyrir hendi til þess að áformuð virkjun skili 14% arðsemi? Byrjum á að spyrja hvað ráði mestu um arðsemina.

Í fyrsta lagi er það virkjunarkostnaðurinn, í öðru lagi vextir af lánsfé og í þriðja lagi orkuverð, þar með talið álverð til framtíðar litið ef menn halda sig við það sem tíðkast hefur, þ.e. að binda raforkuverðið álverðinu. Takið eftir að ég tíni ekki til tilkostnað við umhverfistengda þætti sem að sjálfsögðu ætti að gera, en ríkisstjórnin hyggst ekki gera. Og ég tíni ekki til skatta, þ.e. ef það gengi fram að fyrirtækið yrði gert að sjálfstæðu fyrirtæki á markaði.

Lítum nú á hvern lið fyrir sig. Hver er áætlaður virkjunarkostnaður við Kárahnjúka? Samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar í maí 2001, miðað við gengi í mars 2001, var kostnaðurinn áætlaður 70 milljarðar á fyrri hlutann og 20 milljarðar á síðari hluta framkvæmdanna, eða samtals 90 milljarðar kr. Þá var gengi dollarans um 88 kr. Þannig var virkjunarkostnaðurinn í dollurum um 1.023 milljónir dollara, eða um 209 þús. bandaríkjadollarar á gígavattsstund. Ég kem að þessu nánar síðar.

[15:45]

Víkjum nú að vöxtunum og gefum okkur að vaxtakjör séu hagstæð, m.a. vegna ábyrgðar ríkis, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Gefum okkur einnig að rekstrarkostnaður sé í lágmarki. Þá þurfum við engu að síður, þegar einnig er litið til afskrifta og 14% arðs af eigin fé, að reikna með árlegum tekjum af orkusölunni sem nemur um 11% af fjárfestingunni eða u.þ.b. 10 milljörðum kr. Hér styðst ég við 90 milljarða og færi þá upp samkvæmt gengisskráningu dagsins í dag. Það þýðir að kílóvattstundin frá Kárahnjúkavirkjun þyrfti að skila 2,50 kr. eða u.þ.b. 25 mill. Það er u.þ.b. helmingi hærra verð en nú fæst fyrir raforku til Straumsvíkur miðað við núverandi álverð.

Þetta eru staðreyndir málsins. Og ég hefði gaman af að heyra sjónarmið hæstv. viðskrh. og skoðanir hennar á því sem hér er sagt.

Miðað við núverandi verð áls á heimsmarkaði eru 25 mill mjög hátt og ekki í nokkru samræmi við það verð sem Landsvirkjun hefur fengið fyrir orkusölu til stóriðju.

Á hvaða ráð skyldi þá verða brugðið? Sannast sagna gerast þær spurningar áleitnar þegar hér er komið sögu hvort verið geti að menn sjái sér nauðugan þann kost að hagræða staðreyndum til að ná pólitískum markmiðum ríkisstjórnarinnar og yfirlýstum fyrirheitum Landsvirkjunar. Eða hvernig skýra menn það að virkjunarkostnaðurinn er lækkaður um tugi prósenta, úr 90 milljörðum miðað við gengi upp á 88 kr. fyrir dollar og niður í 78 milljarða miðað við 99 kr. á dollar, eða u.þ.b. 24% lækkun í dollurum talið. Með þessu móti er að sjálfsögðu unnt að láta sem svo að raforkuna megi selja fyrir lægra verð en í fyrra dæminu. Þetta verður ríkisstjórnin að skýra. Hún verður að skýra þær tölur sem nú eru að birtast í gögnum hennar.

Hitt er svo annað mál að við eigum eftir að fá svör við öðrum ekki síður áleitnum spurningum. Þannig á eftir að reikna inn mótvægiskostnað og kostnað vegna þeirra tuttugu skilyrða sem umhvrh. setti þegar hún heimilaði þessar framkvæmdir. Þegar sá úrskurður birtist lýsti forstjóri Landsvirkjunar því yfir að kostnaður sem leiddi af úrskurði umhvrh. næmi milljörðum króna sem yrði ekki unnt að semja um við væntanlegan orkukaupanda. Þessu lýsti forstjóri Landsvirkjunar yfir.

Þá er um tvennt að ræða, að skattborgarinn borgi brúsann eða að almennir notendur verði að bera kostnaðinn í hækkuðu raforkuverði þótt samkvæmt lögum Landsvirkjunar sé ekki heimilt að hækka almennt raforkuverð vegna sölu til stóriðju eins og komið hefur fram í umræðunni fyrr í dag. Er það þá skattborgarinn sem á að borga brúsann, sem á að bera þennan kostnað? Um þetta verðum við að fá skýr svör frá hæstv. iðnrh.

Þess má geta í þessu sambandi, þ.e. við hina lækkuðu tölu Landsvirkjunar á sama tíma og mótvægiskostnaði er hleypt upp, að þótt aðeins væri litið til tilkostnaðar vegna fokvandamála við Hálslón 1 kæmi þar til viðbótarkostnaður upp á u.þ.b. 2 milljarða á fyrstu 5--10 árum líftíma virkjunarinnar. En þegar á heildina er litið er verið að tala um margfalt hærri upphæðir.

Í framhaldinu er rétt að spyrja hvort öll þessi framkvæmd í heild sinni sé ekki mjög vanáætluð. Ef síðustu tölur frá Landsvirkjun sem birtust í skýrslu umhvrn. væru teknar alvarlega, sem ég tel reyndar fráleitt að gera, fela þær það í sér að unnt væri að framleiða hverja gígavattstund fyrir 160.000 dollara eða u.þ.b. 13% lægra verð en raunin varð við hagkvæmustu vatnsaflsvirkjun sem lokið var við í Þjórsá, þ.e. Vatnsfellsvirkjun, en þar kostaði gígavattstundin u.þ.b. 184.000 dollara eða 15% meira.

Hvernig í ósköpunum ætla menn að skýra þetta þegar við blasa þær stórfelldu framkvæmdir sem þessar virkjanir kalla á? Jarðgöng upp á 78 kílómetra, 3,6--3,8 m í þvermál, og nú er gerð krafa um að þessi göng verði vöktuð og þétt eftir því sem leki kemur fram í þeim. Halda menn virkilega að þetta sé ókeypis? Einhvern tímann var talað um að slíkar framkvæmdir kostuðu um einn milljarð fyrir hvern kílómetra. Ég efast ekki um að þessi tala lækkar eftir því sem tækni fleygir fram en hér erum við a.m.k., bara í þessu, að tala um framkvæmdir sem kosta tugi milljarða króna.

Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, en að hér standi ekki steinn yfir steini. Annaðhvort hafa orðið mistök í framsetningu eða það er hreinlega verið að afvegaleiða okkur. Allt þetta þarf hæstv. viðskrh. að sjálfsögðu að skýra. Og það gengur ekki að koma fram með frv. sem er ekki með grundvallarforsendur, grundvallarefnahagslegar forsendur, arðsemisútreikninga.

Við erum búin að hlusta á hvern stjórnarþingmanninn á fætur öðrum koma hér upp og dásama þessar framkvæmdir án þess að hafa hugmynd um þær efnahagslegu forsendur og þá arðsemisútreikninga sem þær byggja á.

Ég hef leitt fram að það er margt sem bendir til þess að verið sé að hagræða tölum til að þjóna pólitískum markmiðum ríkisstjórnarinnar.

Víkjum aftur, herra forseti, að þeim þáttum sem við sögðum í upphafi að menn væru sammála um, að þessar framkvæmdir mundu skapa störf. Ef það hins vegar reynist einmitt gerast á grundvelli fjárfestinga sem engan veginn bera sig, yrðu þjóðinni þvert á móti verulegur fjárhagslegur baggi, er þá ekki augljóslega hyggilegra að leita annarra ráða við atvinnusköpun? Við skulum ekki gleyma því að hvert starf mundi samkvæmt þessum útreikningum kosta um 400 millj. kr., og látum við þá að sinni mengunina og náttúruspjöllin liggja milli hluta.

Hvað þá um útflutningstekjurnar, þ.e. öflun gjaldeyris? Nú liggur í augum uppi að það ál sem hér yrði framleitt yrði að sjálfsögðu selt úr landi og fyrir það fengist gjaldeyrir eins og ég vék að í upphafi. En það segir ekkert til um það hvort nokkurt vit sé í fjárfestingunni og eins og ég vék að hér áðan er deginum ljósara að svo er ekki. Og þessu gera Landsvirkjunarmenn sér sjálfir grein fyrir. Þeir segja: Ef um væri að ræða framkvæmd á vegum sjálfstæðs fyrirtækis á markaði yrði ekki ráðist í hana. Ég er hér að vitna í orð fjármálastjóra Landsvirkjunar á síðasta orkuþingi.

Margir hagfræðingar, nú ekki alls fyrir löngu Sigurður Jóhannesson, hafa sýnt fram á, m.a. í desemberhefti Vísbendingar, hver áhrifin yrðu ef fyrirtækið væri sjálfstæð eining á markaði. Og auk þess má ekki gleyma að á móti útflutningnum sem menn hafa staðhæft að nemi 14% aukningu kemur innflutningur á hráefni, þ.e. súráli, og þessar miklu fjárfestingar. Og hverjir eiga að ábyrgjast skuldirnar? Hverjir eiga að ábyrgjast lánsfjármagnið? Það erum við, þ.e. ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyri.

Í þessu sambandi má nefna að skuldir og ábyrgðir Reykjavíkurborgar nema nú um 150 milljörðum en heildareign borgarinnar mun vera 206 milljarðar. Ef Reykjavíkurborg gengist í ábyrgð vegna fyrirsjáanlegra lána tengdum þessum risaverkefnum mundu heildarskuldir og ábyrgðir vera langt umfram heildareign borgarinnar.

Herra forseti. Ég á nokkuð eftir af máli mínu þar sem ég ætlaði að fjalla um hagvöxt og þjóðhagsleg áhrif þessara framkvæmda. Það mun ég gera í síðari ræðu minni.