Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 15:55:03 (4702)

2002-02-14 15:55:03# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Verkefnið er stórt í sniðum, segir hv. þm., og allt sem er stórt í sniðum er honum ekki að skapi. Það er því nokkuð ljóst að hann styður ekki þetta verkefni. Þó taldi hann fram nokkur atriði sem væru jákvæð og ég er sérstaklega ánægð með að heyra það, eins og í sambandi við útflutningstekjur, sköpun starfa og annað slíkt. En hann sagði líka að við ættum að leita annarra ráða við atvinnusköpun og það er bara gamla tuggan, þetta ,,eitthvað annað``.

Þó að í sjálfu sér sé ekki skynsamleg aðferð til að útkljá mál að standa í ræðustól á Alþingi vegna þess að í nefndastarfinu á að fjalla um öll ítarefni langar mig samt aðeins til að koma inn á forsendur Landsvirkjunar af því að hv. þm. gerir svo mikið úr þessum arðsemisútreikningum. Við reiknum með að 3/4 stofnkostnaðar verði fjármagnaðir með lánum en 1/4 með eigin fé. Í útreikningunum er gerð krafa um 12% ávöxtun eigin fjár mælt í dollurum sem svarar til ríflega 10% raunávöxtunar. Það er niðurstaða þessara útreikninga að verkefnið standi undir þessu og gott betur. Verkefnið gæti staðið undir allt að 1% hærri vaxtakröfu á allt fjármagnið, bæði lánsféð og eigið fé, eins og ég sagði áðan.