Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:04:27 (4709)

2002-02-14 16:04:27# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil hvetja hv. þm. til að sofa rólega. Hann þarf ekkert að ruglast í ríminu. Ég held að það sé almennt um afstöðu okkar innan Vinstri hreyfingarinnar --- græns framboðs að segja að við teljum náttúruspjöllin svo mikil, þessi óafturkræfu náttúruspjöll svo mikil, að ekki sé hyggilegt að ráðast í þessar framkvæmdir. Þetta held ég að sé hið almenna viðhorf.

Innan okkar raða eru að sjálfsögðu einnig hinir sem vilja skoða, ekki bara þessa framkvæmd heldur allar framkvæmdir sem hreyfa við náttúru landsins með tilliti til annarra þátta. Þeir þættir málsins eru nú til umræðu hér á Alþingi, hinar efnahagslegu forsendur. Ég ákvað við þessa umræðu að einblína á þær og óska eftir því að menn komi með innlegg þar að lútandi í umræðunni.

Hins vegar er lítið um svör. Hér kom hæstv. ráðherra áðan og sagði að hann liti svo á að við værum á móti öllu sem væri stórt í sniðum o.s.frv. Það var hið málefnalega framlag ráðherrans við þessa umræðu. Ég auglýsi eftir röksemdum og upplýsingum.