Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:08:52 (4713)

2002-02-14 16:08:52# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:08]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka hjartanlega undir með hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni. Svona á að sjálfsögðu ekki að tala. Ég talaði reyndar ekki svona sjálfur en svona talar ríkisstjórnin. Svona talar hæstv. viðskrh. Allt í véfréttastíl. Ráðherra neitar að koma fram með nokkrar tölur.

Ég er einmitt að auglýsa eftir að settar verði fram ábyggilegar tölur, þar á meðal um forsendur arðsemisútreikninga. Þær skortir. Ætlar Alþingi að láta bjóða sér --- ég vona að það geri það ekki --- plagg frá Landsvirkjun sem segir nánast að Alþingi komi þetta ekki við, þetta séu viðskiptaleyndarmál? Stjórnarliðar láta sér þetta lynda og koma hver á fætur öðrum í ræðustól og dásama þessi áform, án þess að þekkja grunninn að nokkru leyti.