Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:09:57 (4714)

2002-02-14 16:09:57# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er andvígur heimskulega stórum áformum, sagði hv. þm. og vex allt í augum. Honum óx m.a. í augum að Reykjavík skuldaði 150 milljarða króna og hefur eðlilega áhyggjur af fjárhagsstöðu og rekstri borgarinnar.

En ég vil vekja athygli á því að hv. þm. krefst þess að hér séu settar fram ábyggilegar tölur, þar á meðal um forsendur arðsemisútreikninga. Á hinn bóginn segir hv. þm.: Það er margt sem bendir til þess að verið sé að hagræða tölum til að þjóna pólitískum hagsmunum ríkisstjórnarinnar. Hvernig er nú hægt að leggja tölur fyrir þingmenn eins og þennan, með þvílíkan málflutning? Hverjir eru það sem hagræða tölum? Eru það embættismennirnir sem hagræða tölum? Hverjir eru það? Hvers konar málflutningur er þetta, að biðja annars vegar um tölur og gefa síðan í skyn að þeir sem koma fram með tölurnar séu óheiðarlegir?