Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:14:18 (4718)

2002-02-14 16:14:18# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Íslensk náttúra er verðmæt og við hljótum alltaf að velta fyrir okkur hvort við séum tilbúin að fórna óspilltri náttúru þegar um mannvirkjagerð er að ræða. Það á ekki einungis við um þau mannvirki sem við ræðum hér í dag, heldur á þetta við alltaf. Þetta eru auðvitað alltaf áleitnar spurningar.

Við Íslendingar gerum mjög miklar kröfur til lífsins og þær kröfur leiða til þess að við verðum oft að færa fórnir hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Allt frá því Ingólfur Arnarson nam hér land höfum við smátt og smátt breytt ósnortnu landi með ýmiss konar mannvirkjagerð. Með aukinni velmegun veltum við þessum málum að sjálfsögðu enn frekar fyrir okkur og í raun er ekkert óeðlilegt við það.

[16:15]

Við erum lítil þjóð í stóru landi og búum að mörgu leyti við mjög góð lífskjör, enda gerum við miklar kröfur til lífsins og erum afar tæknilega þenkjandi þjóð. Ég hef á tilfinningunni að þeir sem búa í manngerðu umhverfi, t.d. í höfuðborginni, beiti sér gjarnan af mestri hörku gegn mannvirkjagerð, sé fyrirhugað að reisa þau mannvirki á landsbyggðinni, þó svo hinir sömu láti ýmislegt yfir sig ganga í mannvirkjagerð á höfuðborgarsvæðinu, m.a. til þæginda í daglegu lífi. Hér í borginni eru reist stórhýsi, lagðir vegir, hlaðnir varnargarðar og skjólgarðar ýmiss konar, svo dæmi séu nefnd um mannvirki sem hér eru reist, án þess að þessir sjálfskipuðu umhverfissinnar hreyfi legg eða lið.

Ég hygg að flest okkar í þessum sal teljum okkur umhverfissinna. Hins vegar er það þannig að ef mannvirkin eru í nægilegri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu þá bregðast hinir sjálfskipuðu umhverfissinnar við af fullri hörku. Þeir sjá landsbyggðina fyrir sér í rómantísku ljósi og telja að við sem á landsbyggðinni búum getum gert eitthvað annað, eins og svo gjarnan er sagt, jafnvel lifað á því að tína hundasúrur, fjallagrös, villisveppi og þess háttar.

Ég vil alls ekki gera lítið úr því fólki sem með útsjónarsemi stundar margs konar smáiðnað. Í raun dáist ég gjarnan að frumkvæði þess fólks og því sem það fæst við. Ég dáist líka að því hve blómleg ferðaþjónusta er á Íslandi, landbúnaði hér, sjávarútvegi og ýmsu öðru. fleira. Það er í raun, eins og ég hef sagt, ýmislegt sem við fáumst við á Íslandi og við erum sífellt að þróa samfélag okkar. Ísland er að mörgu leyti harðbýlt land ef við miðum t.d. við granna okkar í Evrópu.

Í umræðunni um Fljótsdalsvirkjun bentu nokkrir stjórnarandstæðingar á að Kárahnjúkavirkjun væri hugsanlega mun betri virkjunarkostur en t.d. að sökkva Eyjabökkum. Á Íslandi glímum við við ýmiss konar byggðavanda, m.a. á Austurlandi. Okkur sárvantar fleiri atvinnutækifæri út á land. Eftir að hafa hlustað á rök heimafólks á Austurlandi, sveitarstjórnarmanna og forráðamanna sveitarfélaga á Austurlandi og eftir að umhvrh. hefur úrskurðað í þessu máli, um þetta viðamikla verkefni, fellst ég á þau rök sem fram hafa verið sett. Mikill meiri hluti íbúa Austurlands er fylgjandi þessum framkvæmdum og hefur lýst undrun sinni á afstöðu þeirra sem hvað harðast hafa barist gegn þeim. Það á jafnt við um heimamenn og þá sem annars staðar koma að.

Ég geri mér grein fyrir að með samþykkt þessa frv. færum við ýmsar fórnir en það er einnig verulegur ávinningur af þessum framkvæmdum. Kárahnjúkavirkjun er stærsta virkjunarframkvæmd sem undirbúin hefur verið á Íslandi. Við færðum einnig fórnir á sínum tíma þegar við virkjuðum t.d. Sog, Búrfell, Sigöldu og fleira gætum við nefnt í þeim efnum. En við fengum líka eitthvað í staðinn. Það þekki ég mjög vel, t.d. úr mínu kjördæmi. Við værum nokkuð aftarlega á merinni ef við hefðum ekki fært þær fórnir. Til gamans má geta þess að hin græna stóriðja, sem við köllum ylræktina okkar, byggir t.d. að stórum hluta á raflýsingu. Hin græna orka, þ.e. virkjun fallvatna er ein af náttúruauðlindum þjóðarinnar og ég tel að við getum ekki annað en nýtt okkur þessar auðlindir.

Ég hef gjarnan rætt þessi mál við norræna kollega okkar. Þegar við tölum um hina grænu orku sem við höfum hér á Íslandi má segja að t.d. Danir séu grænir af öfund yfir þeim náttúruauðlindum sem við eigum og nýtum okkur.

Kárahnjúkavirkjun og stóriðjan á Reyðarfirði yrði ekki einungis gríðarleg lyftistöng fyrir Austurland heldur einnig fyrir landið í heild. Þessar framkvæmdir koma til með að auka þjóðarframleiðslu okkar og landsframleiðslu. 1.100 störf á Austurlandi skipta mjög miklu máli og treysta þar byggð. Þessar framkvæmdir leiða til bættra samgangna og skipta Austurland miklu máli sem og þjóðina í heild. Það á við í ferðaþjónustu og á mörgum öðrum sviðum. Verktakastarfsemi eflist við þessar framkvæmdir og við munum hafa meiri möguleika til að verja fé til menntunar og skólahalds á Austurlandi sem og annars staðar á landinu ef við ráðumst í þessar framkvæmdir. Þess vegna m.a. styð ég þessar framkvæmdir.

Mér finnst á stundum þannig talað um landsbyggðina og Austurland eins og ekkert sé að gerast þar, fólkið sitji þar með hendur í skauti og bíði eftir þessu tækifæri. Það er auðvitað ekki rétt. Austurland er mjög framarlega á mjög mörgum sviðum. Ég nefni sjávarútveg. Fáir staðir sem eru betur tæknivæddir til að vinna uppsjávarfisk en t.d. Neskaupstaður. Ég nefni skógrækt. Ekkert svæði á landinu býr að meiri og öflugri skógrækt en Austurland. Þess eru líka dæmi að mjög myndarleg fyrirtæki í lífrænni ræktun starfi á Austurlandi. Landbúnaður er þar blómlegur og einnig er ferðaþjónusta afar blómleg á því svæði.

Eftir langvarandi stöðnunartímabil á Íslandi var ákveðið að stækka álverið í Straumsvík. Það má velta fyrir sér á hvern hátt umræðan í þjóðfélaginu breyttist við það nánast á einni nóttu. Allt í einu fóru fjölmiðlar að fjalla um þessi mál, menn fóru að hafa áhyggjur af því að þensla yrði í landinu og þar fram eftir götunum. Nú hefur um tíma verið talsverð þensla á Íslandi. Reyndar hefur dregið úr þeirri þenslu en til þess að viðhalda atvinnustarfsemi, m.a. verkstakastarfsemi, finnst mér sjálfsagt að ráðast í þetta verkefni.

Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði er kærkomin viðbót í atvinnuflóru Austurlands. Það er einmitt þess vegna sem ég er hlynntur þessum framkvæmdum.