Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:30:03 (4722)

2002-02-14 16:30:03# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:30]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Vissulega óar mér við þessum tölum, (SJS: Gott er að heyra.) Vissulega óar mér við þessum tölum. Þær eru gríðarlega háar. En mér óar líka oft við afturhaldi Vinstri grænna. (SJS: Nei.) Jú, mér óar við því ótrúlega afturhaldi. Þess vegna finnst mér dálítið merkilegt þegar hv. 5. þm. Norðurl. v. fer allt í einu að hafa miklar áhyggjur af ríkinu og atvinnurekstri. Hv. þm. hefur gjarnan talað fyrir því að atvinnurekstur eigi nú að vera sem mest í höndum ríkisins (JB: Nei, nei.) og vill jafnvel styrkja ýmiss konar ríkisrekstur úti á landsbyggðinni, sem í sumum tilfellum á auðvitað rétt á sér.

Við megum ekki gleyma því að þegar menn voru t.d. að ræða um Búrfellsvirkjun á sínum tíma voru mjög margir sem börðust mjög gegn þeirri virkjun. Sem betur fer eru þær raddir löngu þagnaðar. Sumir þeirra sem börðust hvað hatrammast gegn þeirri virkjun eru nú komnir undir græna torfu eins og gerist og gengur.

Ég viðurkenni alveg að mér óar við þessum tölum, þær eru gríðarlega háar. Ég og hv. þm. störfum ágætlega saman í fjárln. og við þurfum oft að horfa framan í háar tölur. Þessar tölur eru auðvitað gríðarlega háar en ég endurtek að á sama hátt og mér óar við þessum tölum óar mér líka við afturhaldi Vinstri grænna. Ég er hræddur um að lítið gerðist í þessu landi ef það ágæta fólk væri við stjórnvölinn í landinu.