Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:32:00 (4723)

2002-02-14 16:32:00# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Ég vil byrja á að fagna því að þetta frv. hafi verið lagt fram. Ég er sannfærð um að þessar framkvæmdir munu hafa miklar og jákvæðar breytingar í för með sér fyrir mannlíf og atvinnumál á Austurlandi og fyrir þjóðarbúið í heild. Ég tel þær nauðsynlegar ef við ætlum að halda uppi þeim lífskjörum sem Íslendingar gera kröfu til, sem við búum við, þ.e. bestu lífskjör á meðal þjóða heimsins.

Þann 1. des. 2001 voru um 11.800 íbúar skráðir til heimilis á Austurlandi öllu og hafði þá aðeins fjölgað um 3.300 alla 20. öldina. Á sama tíma þrefaldaðist hins vegar íbúafjöldi á landinu öllu. Sé litið til síðustu þriggja áratuga hefur orðið hægfara fólksfækkun á Austurlandi. Tímabilið 1971--1979 var vaxtarskeið og íbúum fjölgaði um 10%. Áratuginn þar á eftir, 1979--1990, tók við tímabil stöðnunar og íbúum fjölgaði mjög hægt eða aðeins um 1,5%. Frá því 1990 hefur íbúum á Austurlandi hins vegar fækkað um nálega 1% á ári eða samtals um rúmlega 10%.

Herra forseti. Þetta er mikið áhyggjuefni og auðvitað hefur Austurland ekki farið varhluta af þeirri þróun sem átt hefur sér stað á Íslandi undanfarna áratugi. Á höfuðborgarsvæðinu hefur orðið til vaxtarsvæði með tilheyrandi uppgangi og velmegun í efnahags- og menningarlífi sem laðað hefur til sín stóra hópa fólks, einkum yngra fólk af landsbyggðinni. Hinar dreifðu byggðir geta með engu móti keppt við þá fjölbreytni náms og starfa sem er að finna á höfuðborgarsvæðinu og hefur leitt mörg sveitarfélög á Íslandi inn í vítahring fólksfækkunar og versnandi búsetuskilyrða. Unga fólkið, sem við köllum stundum hrygningarstofninn, hefur farið í burtu og við vonumst til að hann komi aftur heim þegar farið verður í þessar framkvæmdir

Virkjunarframkvæmdir og uppbygging stóriðju á Austurlandi er það sem helst er talið geta einmitt snúið við þróuninni á Miðausturlandi.

Í athugasemdum með frv. kemur fram, með leyfi forseta:

,,Þjóðhagsstofnun hefur að beiðni iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins metið þjóðhagsleg áhrif álvers í Reyðarfirði og tengdra virkjanaframkvæmda. Í skýrslu stofnunarinnar, sem er fylgiskjal IV með frumvarpi þessu, kemur fram að áhrifin verða veruleg. Horfur eru á að landsframleiðsla verði að meðaltali rúmlega 2% hærri og þjóðarframleiðsla 1,5% hærri á framkvæmdatíma en annars hefði orðið. Landsframleiðsla gæti orðið 1,5% hærri til lengdar en annars og þjóðarframleiðsla tæplega 1% hærri. Mikið umfang framkvæmda á árunum 2004--2006 og snöggur samdráttur þeirra á árunum 2007 og 2008 gerir töluverðar kröfur til hagstjórnar. Hugsanlegt er að án mótvægisaðgerða fari verðbólga yfir þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka á þessu tímabili. Jafnframt er hætta á umskiptum í þjóðarbúskapnum vegna samdráttar framkvæmda 2007 og 2008. Horfur eru á að viðskiptahalli aukist nokkuð á framkvæmdatíma vegna innfluttra fjárfestingarvara og aukinnar eftirspurnar í þjóðarbúskapnum. Eftir að framkvæmdum lýkur og álverið hefur náð fullum afköstum má búast við að áhrif á viðskiptajöfnuð verði jákvæð, en miðað við óbreytt raungengi gæti útflutningur orðið um 14% meiri en annars fyrsta áratuginn eftir lok framkvæmda.``

Herra forseti. Eftirfarandi kemur fram í umsögn Orkustofnunar:

,,Kárahnjúkavirkjun er sérstök virkjun hérlendis að því leytinu að hún er alfarið reist til að afla orku til eins stórkaupanda. Í samræmi við 3. mgr. 13. gr. laga um Landsvirkjun verður því markmiðið með orkusölunni að vera það eitt að viðhalda og helst bæta hag fyrirtækisins.

Öllum slíkum verkefnum fylgir áhætta. Því er mikilvægt að aðferðfræði við hagkvæmnismatið taki tillit til áhættuþátta og hugsanlegra breytinga á forsendum um leið og mat sé lagt á líkindi allra breytinga. Af þessum sökum hefur Orkustofnun kynnt sér sérstaklega hvernig Landsvirkjun stendur að verki í þeim efnum. Stofnunin telur aðferðafræðina vandaða og ítarlega og því séu allar forsendur fyrir hendi til þess að niðurstaða Landsvirkjunar um það hvort í verkefnið skuli ráðist byggi á traustum grunni og þar með að sú ákvörðun verði í fullu samræmi við tilvitnað lagákvæði.``

Þetta tek ég fram vegna orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar í ræðu hans áðan.

Orkustofnun bendir enn fremur á að þegar rammaáætlun um nýtingu vatnsorku og jarðvarma verður til lykta leidd muni niðurstaða hennar fela í sér flokkun virkjunarkosta sem bæði taki tillit til hagkvæmni svo og annarra þátta svo sem náttúruverndar og byggðasjónarmiða. Þess hefur verið óskað að fjallað verði um Kárahnjúkavirkjun í rammaáætluninni. Í því skyni verður áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar borið saman við svæði vatnsaflsvirkjana með miðlunarlón ofan hálendisbrúnar og einnig við samfellt gróðurlendi á miðhálendinu þótt þar verði engar virkjanir, allt til þess að breikka þekkingar- og samanburðargrunninn. Það sem þó mun valda mestri óvissu í vinnu rammaáætlunar er að erfitt er að bera saman virkjanir af ólíkri stærð, en það þarf tíu Búðarhálsvirkjanir eða fjórar Fljótsdals- eða Skatastaðavirkjanir, í Jökulsá austari í Skagafirði, til að framleiða sömu orku og Kárahnjúkavirkjun skilar í báðum áföngum hennar. Orkustofnun telur að ekki sé hægt að meta Kárahnjúkavirkjun nema setja hana í þetta stærðarsamhengi.

Fyrr í dag var vikið að friðlendum og þjóðgörðum. Það er eðlilegt að skoðað sé hver hugsanleg áhrif ákvarðana í þeim efnum verða á nýtingu orkulinda. Orkustofnun styðst við samanburaðartöflu í greinargerð sinni sem spannar vatnsorkukosti á Austur- og Norðausturlandi, allt svæðið frá suðurfjörðum Austfjarða til Jökulsár á Fjöllum. Þar vestur af taka við nokkur öflug háhitasvæði, Kverkfjöll, Askja, Hrúthálsar, Fremrinámar og Vonarskarð. Í suðri eru Kverkfjöll sem eru þó þannig í sveit sett að þar verður seint virkjað.

Á öllu þessu svæði og í grennd við það er rúm fyrir friðlönd og þjóðgarða af ýmsu tagi. Verði Kárahnjúkavirkjun með stóru Hálslóni að veruleika er ekki lengur þörf á að miðla vatni á Eyjabökkum. Þar með væru tök á að festa í sessi hugmynd um Snæfellsfriðland eða þjóðgarð sem tengist eðlilega við friðland á Lónsöræfum. Hálslón og áhrifasvæði þess afmarka þetta svæði til vesturs. Vestan áhrifasvæðis Hálslóns tekur við gríðarmikið svæði sem einnig er til umfjöllunar sem friðland. Kverkfjöll og Kverkfjallarani eru eðlileg miðja þess friðlands. Austan þess eru Kringilsárrani og Sauðárdrög og e.t.v. Laugavalladalur, sem hefur verið nefndur sem staður fyrir þjónustumiðstöð. Að vestan eru Askja, Dyngjufjöll, Herðubreiðarlindir og Grafarlönd og enn vestar Sprengisandur með Gæsavötn og Urðarháls, og loks Vonarskarð.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason hefur vikið að því í dag hve virkjanirnar á Suðurlandi hafa reynst okkur hagfelldar. Við sjáum að þær nýtast vel til ferðaþjónustu. Margir hafa gaman af því að koma og skoða virkjanir. Vegna virkjana hafa verið lagðir vegir um háendið sem almenningur hefur getað notað og gefið þeim tækifæri að komast inn á hálendið, sem þeir hefðu ekki getað ella. Þeir sem hafa komið að Niagarafossum, á mörkum Kanada og Bandaríkjanna, hafa séð það hvernig fossarnir eru nýttir, bæði virkjaðir til orkuöflunar og eins sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þar fara um milljónir manna á hverju ári til að skoða kraftinn í vatnsfallinu. Fólk hefur vissulega mikla ánægju af því að horfa á svona stórframkvæmdir. Þar hafa þeir getað fléttað saman nýtinguna og ferðmennskuna og þar sækja ferðamenn ekki í ósnortna náttúru en þeir flykkjast til staðarins milljónum saman.

Í greinargerð Þjóðhagsstofnuanr er lagt mat á þjóðhagsleg áhrif 390 þúsund tonna álvers Reyðaráls og tengdra virkjanaframkvæmda eða Noral-verkefnisins. Í athugun á þjóðhagslegum áhrifum er reiknað með að fyrri áfangi Reyðaráls með 260 þúsund tonna framleiðslugetu komist í gagnið árið 2006 og hinn síðari, 130 þúsund tonn, árið 2012. Í tengslum við fyrri áfanga álversins er gert ráð fyrir framkvæmdum við 1. áfanga Kárahnjúkavirkjunar og í tengslum við síðari áfangann framkvæmdum við 2. áfanga Kárahnjúkavirkjunar, Bjarnarflagsvirkjun og Kröfluvirkjun. Í athuguninni er reiknað með að álvers- og virkjanaframkvæmdir standi yfir á tímabilinu 2002--2013.

Allt mun þetta kalla á mikinn mannafla sem mun veita mörgum vinnu og, herra forseti, svo sannarlega er þetta verkefni stórt í sniðum. Fjöldi fólks mun fá atvinnu sem hefur margfeldisáhrif út í samfélagið og mun verða þjóðarbúinu hagfellt í bráð og í lengd.