Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 17:14:20 (4733)

2002-02-14 17:14:20# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[17:14]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gleðst að sjálfsögðu yfir því að hv. þm. vill gjarnan geta stutt frv. Hún spurði ýmissa spurninga og að sjálfsögðu á eftir að fjalla um málið heilmikið í nefnd.

Í fyrsta lagi talar hún um arðsemi. Ég hef svarað því nokkrum sinnum hér í andsvörum að auðvitað skiptir arðsemin miklu máli. En ég tel ekki að það sé í sjálfu sér fyrst og fremst verkefni Alþingis að fara mjög djúpt í það mál. Við vitum að Landsvirkjun gerir ekki samning við þessa aðila öðruvísi en að fá það verð fyrir að það dekki allan fjármagnskostnað og þann rannsóknarkostnað sem lagt hefur verið í, og sé arðbært til framtíðar.

Álverðið er mál sem er svo sem þekkt þegar við förum aftur í tímann. Síðan byggist það á spá fram í tímann. Eitthvað geta menn haft mismunandi áherslur í því sambandi hvernig eigi að spá. Ég veit að á því eru mismunandi skoðanir. Þess vegna hefur hagfræðingum og þeim sem hafa verið að velta fyrir sér arðbærni fyrirtækisins ekki alveg borið saman.

Um mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum er það að segja að það er bara vilji til þess að standa sig í þeim efnum af hálfu ríkisstjórnar. Við gerum okkur grein fyrir því að ekki er allt hægt á þeim tíma sem þensla verður mest og það verður að grípa til aðgerða til þess að slá á hana.

Það er rétt sem hv. þm. sagði að gert er ráð fyrir því að hefja framkvæmdir við virkjun strax í vor, þ.e. að því tilskildu að ákvörðun verði tekin í samstarfsnefndinni um að mæla með því við viðkomandi aðila að fara í verkefnið. Á grundvelli slíkrar samþykktar yrði hafist handa.