Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 17:16:39 (4734)

2002-02-14 17:16:39# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[17:16]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem aðeins inn á tvær af þeim spurningum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra, þær sem ég tel hvað mikilvægastar.

Sú fyrri varðar mótvægisaðgerðirnar vegna efnahagslegu áhrifanna af þessu verkefni. Ráðherrann hæstv. nefndi að ríkisstjórnin mundi skoða það en spurningar mínar lutu að því hvort hæstv. ráðherra mundi beita sér fyrir því að tillögur að mótvægisaðgerðum mundu liggja fyrir áður en þetta frv. verður afgreitt frá þinginu. Ég tel það vera grundvallaratriði og afar mikilvægt, m.a. vegna áhrifanna á verðbólgu á næstu árum, að ríkisstjórnin leggi fyrir þingnefnd og þingið til hvaða aðgerða hún ætlar að grípa í þessu efni. Ég fór yfir hvaða atriði Þjóðhagsstofnun hefur nefnt að þurfi að skoða. Það eru m.a. áhrifin á vexti, aðrar fjárfestingar og fleiri þætti. Og ég spyr ráðherrann: Mun hún beita sér fyrir því að þær verði lagðar fyrir þingnefnd og þing áður en þetta mál verður afgreitt frá þinginu?

Síðan spyr ég hæstv. ráðherra út af því sem hún ræddi um tímasetningar varðandi lokaákvörðun í þessu verkefni í sept. hvort ekki sé alveg ljóst hjá ráðherranum --- ég skildi hana svo og það hangir alveg saman við virkjunarframkvæmdirnar --- að hægt sé að ná einhverri ásættanlegri niðurstöðu varðandi álverksmiðjuna sjálfa og eignaraðild að henni. Er forsenda fyrir því að ráðist verði í þessar virkjunarframkvæmdir að viðunandi niðurstaða náist að því er varðar verksmiðjuna sjálfa, þ.e. bæði varðandi eignaraðild og aðra þætti sem þurfa að liggja fyrir? Ég tel afar mikilvægt að fá fram hvort það hafi ekki verið skilningur ráðherrans í svari hennar hér áðan.