Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 17:43:57 (4738)

2002-02-14 17:43:57# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., GunnS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Gunnlaugur Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. 5. þm. Austurl. langar mig til að spyrja hvort hv. þm. sem hefur áhyggjur af því að þessi framkvæmd muni hafa óheillavænleg áhrif á efnahagsþróun í landinu, telji ekki eigi að síður að þetta muni hafa mjög heillavænleg áhrif á efnahagsþróun og hagsæld á Austurlandi, hvort þetta verk, þessi framkvæmd, muni ekki styrkja búsetu á Austurlandi og hvort þetta verk og þessi framkvæmd muni ekki efla lífskjör fólks á Austurlandi.

Mig langar líka til að velta upp þeirri spurningu hvort hv. þm. telji, ef farið yrði að tillögu hv. þm. um að hætta við þessi áform, að það mundi valda slíkum vonbrigðum á Austurlandi að líkja mætti því við búsetuspjöll. Ég virði skoðanir hv. þm. um náttúruspjöll en mig langar til þess að hv. þm. velti fyrir sér þeirri spurningu hvaða áhrif það mundi hafa ef farið yrði að tillögu hv. þm. og hvort ekki mætti þá taka sér í munn orðið búsetuspjöll, og það mjög alvarleg í ljósi þeirra væntinga sem ríkja á meðal fólks á Austurlandi. Stór meiri hluti Austfirðinga bíður eftir aðgerðum, bíður eftir því að þessar framkvæmdir megi verða.

Sveitarstjórnarmenn hafa unnið baki brotnu til þess að styðja þetta verk. Telur hv. þm. ekki ástæðu til að hlusta á rök og rödd meiri hluta Austfirðinga í stað þess að valda þeim vonbrigðum með því að hætta þessu verki? Hvaða afleiðingar hefði það fyrir búsetu á Austurlandi?