Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 18:26:35 (4742)

2002-02-14 18:26:35# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst ætla ég að gera athugasemd við fáránlega fullyrðingu sem kom fram hjá hv. þm., þ.e. að það sé pólitísk valdbeiting að umhvrh. taki þessa afstöðu. Hver á að taka ákvörðun um svona stórframkvæmd ef ekki pólitíkusar? Eiga stofnanir úti í bæ að gera það? Hvað hefði hv. þm. sagt ef úrskurður Skipulagsstofnunar hefði verið á hinn veginn? Þetta dæmir sig náttúrlega sjálft.

Svo ætla ég að biðja hv. þm. að tala ekki til mín eins og einhvers níðings náttúrunnar. Ég hef búið í sveit alla mína tíð á sama tíma og hv. þm., eftir því sem ég best veit, hefur alist upp í Reykjavík og áreiðanlega ekki í eins nánum tengslum við náttúruna og náttúrufegurð landsins og dýralíf og þar fram eftir götunum.