Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 18:33:00 (4746)

2002-02-14 18:33:00# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[18:33]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fylgist af athygli með því sem hv. þm. segir og ég verð að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum að hún skuli leyfa sér að segja að það sem hún sagði fyrir tveimur árum skipti ekki neinu máli lengur. (KolH: Ég sagði það ekki.) Núna eru það ekki lögin sem skipta lengur máli. Nú er það bara skoðun hv. þm. og flokksins. Svona framkomu kalla ég terrorisma og í besta falli anarkisma þar sem það skiptir engu máli fyrir ykkur hvað lög segja yfir höfuð. Það er bara ykkar einstrengingslega túlkun á því hvað þið teljið vera þessari þjóð fyrir bestu, og það er að hvergi megi virkja. Það má hvergi ná samkomulagi um nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í.) Þið eruð alls staðar á móti. (Gripið fram í.) Þú hefur sagt það, hv. þm., að þið réttið fram sáttarhönd ef menn fallast á að fara með stórframkvæmdir í umhverfismat. En hvað gerist þegar þetta fer í umhverfismat og niðurstaða fæst? Þá segið þið: Það er ekkert að marka það vegna þess að það var ráðherra sem tók þessa ákvörðun. Lögin gerðu samt ráð fyrir að ráðherra tæki þessa ákvörðun, og hv. þm. og hennar flokkur skrifaði upp á þau lög athugasemdalaust.

Það er ótrúlegt að hlusta á flokk vinstri grænna hafa yfirleitt miklar skoðanir á þessu máli lengur. Það er ekkert að marka sem þingmennirnir segja og það er í rauninni ekki lengur ástæða til að taka mark á þingflokki sem hagar sér með þessum hætti.