Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 18:34:45 (4747)

2002-02-14 18:34:45# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[18:34]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa hástemmdum ummælum hv. þm. á bug. (KPál: Það hefur enginn verið með hástemmdar lýsingar hér.) Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er friðsamur flokkur. Ég gengst alveg við þeim orðum mínum sem hér féllu í umræðunni um Fljótsdalsvirkjun, að ég leit á það á þeim tíma sem útrétta sáttarhönd af okkar hálfu að vilja vera tilbúin til að beygja okkur undir mat á umhverfisáhrifum þeirrar virkjunar. (KPál: Nú er það stríð, sem sagt.) Sannleikurinn er sá að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur gert nákvæmlega það sama núna í Kárahnjúkamálinu. Hvað höfum við gert? Lagt fram þáltill. um það að virkjunin verði borin undir atkvæði þjóðarinnar. Og ætlum við ekki að vera tilbúin til að beygja okkur undir þann meirihlutavilja, að annaðhvort verði framkvæmdinni hafnað eða að farið verði að þessum leikreglum sem við viljum að séu haldnar? Það verði gerð rammaáætlun, orkunýtingaráætlun og þessir hlutir skoðaðir allir í stóru samhengi til langs tíma. (KPál: Þetta er allt ...)

Herra forseti. Það er ekki forsvaranlegt að Kárahnjúkavirkjun skuli koma á dagskrá á sama kjörtímabili og hún verður afgreidd út af borðum þingmanna. Þjóðin hefur aldrei fengið að tjá sig um þessa Kárahnjúkavirkjun í kosningum. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er tilbúin til að bera þessar hugmyndir undir þjóðina og tilbúin til að beygja sig undir vilja þjóðarinnar í þeim efnum. En þjóðin hefur ekki valið Kárahnjúkavirkjun.