Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 19:52:39 (4750)

2002-02-14 19:52:39# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[19:52]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég segi nú bara að það er eins gott að framsóknarmenn höfðu þrautseigju og þol til að halda áfram með þetta mál og halda áfram að draga vagninn því að svo sannarlega eru fleiri og fleiri að hoppa upp í hann. Það endar með því að það verður orðin alger samstaða um þetta mál, spái ég, í þjóðfélaginu og þá verð ég dálítið hreykin. (Gripið fram í.)

Ég var dálítið óánægð með eitt í málflutningi hv. þm. Hann kallaði það óþol og botnaði ekkert í því hve menn vildu hraða sér að komast af stað í málinu. Svo hafa aðrir flokksfélagar hans verið að tala um að þeir hefðu áhyggjur af þessum miklu væntingum fyrir austan þannig að þarna finnst mér ekki vera alveg fullt samræmi. Ég er sammála þeim sem vilja leggja alla áherslu á að reyna að halda tímaáætlanir. Ástæða þess að meiningin er að Landsvirkjun fari strax í sumar í undirbúningsframkvæmdir er fyrst og fremst sú að þá nýtist sumarið og þá getum við staðið við þær áætlanir sem uppi hafa verið um að hefja framleiðslu í álverinu árið 2006. Þetta er stóra málið hvað það varðar.

Hv. þm. hafði efasemdir um að tekin yrði sú ákvörðun eftir einhverja áratugi að hætta að selja orku til álverksmiðja og að orkan yrði notuð í annað. Það er kannski eðlilegt að hann hafi efasemdir. Engu að síður er þessi möguleiki fyrir hendi. Sumir hafa haldið því fram að ál sé ekki framtíðarmálmur, þeir tímar geti komið að ekki verði markaður fyrir ál. Því vil ég bara leggja áherslu á að þá er þessi möguleiki fyrir hendi þannig að ekki er hægt að segja að búið sé að fórna öllum okkar bestu kostum fyrir álframleiðslu.