Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 19:56:55 (4752)

2002-02-14 19:56:55# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[19:56]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. fjallaði um óþol stjórnvalda. En mér finnst gæta óþols hjá honum sjálfum þegar hann fer að velta fyrir sér möguleikunum á þessum virkjunarkostum. Hann segist sjá fyrir sér að þessar tvær ár sem hér er verið að fjalla um verði örugglega virkjaðar í framtíðinni með einhverjum hætti. En svo kom fram í máli hans að hann teldi líklegt að hægt væri að finna einhverja aðra kosti jafnframt. Hv. þm. var með vangaveltur í þessa veruna.

Nú vil ég spyrja hv. þm.: Hvaða álit hefur hann á hugmyndum um rammaáætlun um virkjunarkosti? Þá geng ég út frá því að við séum að ræða um rammaáætlun sem unnin er faglega af þeim hópum sem nú eru í þeirri vinnu og að sú rammaáætlun fái stöðu í stjórnsýslunni sem plagg sem fara þarf eftir, þ.e. að hún verði skilgreind sem skipulagsmál og þannig lögfest. Hvaða álit hefur hv. þm. á slíkri áætlun? Telur hann slíka áætlun ekki vænlegri til þess að gefa okkur óyggjandi niðurstöðu um röðun virkjunarkosta fremur en almennar vangaveltur þingmanna úr þessum stóli?

Varðandi síðan vangaveltur hv. þm. um Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð, er undarlegt að hann skuli láta í ljósi einhverjar efasemdir um afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs því að hún hefur verið gefin út í þingskjölum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er á móti því að virkjunarkostum af þessu tagi sé sóað í stóriðju vegna þess að við erum á því að hér eigi að framkvæma sjálfbæra orkustefnu. Við höfum þess vegna talað fyrir því að mun vænlegra sé að virkja fyrir vetnisvæðingu og samkvæmt okkar útreikningum þurfum við um það bil 20 teravattstundir af raforku til þess að geta afskaffað jarðefnaeldsneytið.