Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 19:59:06 (4753)

2002-02-14 19:59:06# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[19:59]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað þyrfti rammaáætlun að liggja fyrir. Við höfum rætt það hvað eftir annað og kvartað yfir því að menn skuli ekki hafa þá áætlun undir höndum. Hún er ekki fyrir hendi og hér koma stjórnvöld með þetta mál inn. Menn verða að horfast í augu við það og taka afstöðu til málsins sem hér er að koma og er á borðum hjá þingmönnum. Undan því er einfaldlega ekki hægt að koma sér.

Hvað varðar það sem hv. þm. sagði um Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð þá hafa Vinstri grænir einfaldlega lagt til að þetta mál í heild sinni verði lagt í hendur stjórnvalda og þeim verði falið að undirbúa skoðun á einhvers konar þjóðgarði með því að þjóðin verði spurð hvort hún vilji hafa þetta eins og gert er ráð fyrir í þessu plaggi eða ekki. Með því að leggja það til verður það svolítið skrýtið ef sami flokkur leggur til að þetta verði fellt á Alþingi því það er væntanlega ekki hægt að leggja málið fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu ef búið er að fella það. Þess vegna sem mér finnst ástæða til að spyrja: Hvernig vilja menn að farið verði með þetta mál akkúrat núna á meðan mál Vinstri grænna hefur ekki verið afgreitt í sölum Alþingis?