Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:04:35 (4757)

2002-02-14 20:04:35# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:04]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Menn hafa auðvitað talað um hvort þetta borgaði sig og hafa haft á því ýmsar skoðanir. Hv. þm. Vinstri grænna hafa lýst því að þetta væri hið mesta óráð. Ég tel að það sé ekki niðurstaða sem við náum hér í þingsölum. Á það mun reyna þegar fjárfestarnir koma í málið. Ég geri ráð fyrir að innan ekki mjög langs tíma fari eitthvað að koma í ljós um þetta. Ég hafði þess vegna áhyggjur af því, og nefndi í umræðum við hæstv. ráðherra þetta með framkvæmdir og hugsanlegar ákvarðanir fjárfesta, sem sjálfsagt liggja yfir því hvað þetta er arðvænlegt. Það er auðvitað þeirra úrskurður sem ræður úrslitum en ekki hvað við höldum hér í þingsölum.

Við þingmenn þurfum auðvitað að vera vissir um að hjá Landsvirkjun séu gerðar eðlilegar arðsemiskröfur. Það er kannski ekki áhyggjuefni út af fyrir sig hvað fjárfestarnir leggja til grundvallar þegar þeir taka ákvörðun um að fjárfesta í álverinu. En við berum fyrst og síðast ábyrgð á Landsvirkjun og hvernig að ákvörðun um raforkuverð verður staðið.

Ég held að þegar hv. nefnd fer yfir þetta mál þurfi hún að krefja svara um fjárhagsstöðu Landsvirkjunar, hvernig hún verður í tengslum við þetta verkefni. Mér finnst engin ástæða til að gefa það eftir að menn fái þá vitneskju. Þar er jú mikið í húfi.