Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:28:13 (4765)

2002-02-14 20:28:13# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:28]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að leggja nokkur orð í belg við 1. umr. um frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Kannski er ekki mjög miklu að bæta við þessa löngu umræðu í dag, en þó, nokkrir hlutir hafa skýrst og annað er jafnóljóst og það var við upphaf umræðunnar.

Það liggur fyrir, herra forseti, að endanleg ákvörðun um það hvort álver rísi í Reyðarfirði verður ekki tekin fyrr en 1. sept. nk. Ég vænti þess að ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi ætli að afgreiða þetta frv. fyrir vorið, og enn og aftur leiðir maður hugann að því hvernig alltaf er farið öfugt að hlutunum á Íslandi, byrjað á öfugum enda.

Eins og fram hefur komið í þessari umræðu liggur rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma ekki fyrir og mun ekki gera, a.m.k. ekki í heild sinni, á næstunni. Það er í rauninni alveg óljóst hvaða þýðingu hún hefur í þessu samhengi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að mun skynsamlegra fyrir virkjanaumræðu hefði verið að doka við og bíða þess að sú faglega, vísindalega og góða vinna færi fram og henni lyki þannig að við hefðum í höndunum eitthvert plagg, einhverja skýrslu, sem hægt væri að vinna með til framtíðar. Auðvitað er niðurstaða slíkrar skýrslu aldrei eitthvað sem allir gleypa við óbreyttri. Ég geri mér fulla grein fyrir því, herra forseti. Hins vegar er vandinn í þessari umræðu sá að grundvöllurinn er í raun aldrei hinn sami, eða hann er breytilegur og færist frá ári til árs.

[20:30]

Fyrir rúmum tveimur árum deildum við hér um virkjun í Fljótsdal og um Eyjabakka. Það fór eins og það fór. Óþarfi er að endurtaka þá sögu hér. Nú er komið að Kárahnjúkavirkjun, virkjun fyrir eitt álver fyrir austan eins og öllum er kunnugt, og ætlun ríkisstjórnarinnar er að afgreiða frv., leyfið, áður en það liggur fyrir hvort álverið rísi.

Lái mér hver sem vill, herra forseti, en mér finnst þetta öfug forgangsröð og ekkert sérstaklega góð vinnubrögð. Ég held að við í þessum sal ættum öll að geta sammælst um að ástunda eigi góð vinnubrögð, skynsöm og yfirveguð. En það hefur lítið farið fyrir þeim í þessum málaflokki og í stóriðjubrölti hæstv. ríkisstjórnar, því miður. Ég vil leyfa mér að segja að með því að halda á málum eins og raun ber vitni hefur þessi ríkisstjórn --- þó að það sé fjarri mér að gefa henni góð ráð --- gert sér þessi mál erfiðari en þörf var á. Ef fólk ástundar sæmileg vinnubrögð, skynsöm, opin, upplýst og heiðarleg, þ.e. geti stjórn og stjórnarandstaða tekið þátt í því vinnuferli mundi ég ætla að mun oftar yrði komist að sameiginlegri niðurstöðu um stórmál fyrir þjóðina alla, eins og þetta mál, sem hæstv. iðnrh. kallaði reyndar fyrir nokkrum dögum stærsta byggðamálið.

Þjóðhagslegar mótvægisaðgerðir liggja ekki fyrir. Arðsemi virkjunarinnar liggur ekki fyrir. Okkur er ekki kunnugt um raforkusamninga eða raforkuverð. Kostnaður vegna þeirra mótvægisaðgerða sem hæstv. umhvrh. setti skilyrði um, mér er ekki alveg ljóst hvar hann liggur. Ég skal hins vegar viðurkenna það, herra forseti, að ég átti þess ekki kost að heyra allar ræður hér í dag. Það væri vissulega fróðlegt að fá það upplýst.

Í mínum huga, þrátt fyrir svokallað framhaldsmat hæstv. umhvrh. á umhverfisáhrifum þessarar virkjunar og þrátt fyrir þau skilyrði sem hún setti 20 talsins, mismikil og mismikilvæg, stendur það enn að Kárahnjúkastífla er 190 m há grjótstífla, enn er Hálslón 57 km2, þegar það er fullt er það í 625 m hæð yfir sjávarmáli og í lægstu stöðu í 550 m hæð yfir sjávarmáli. Þar á er 75 m munur.

Framkvæmdin sem slík hefur í raun ekkert breyst þótt ýmsum ábendingum sem komu fram í umhverfismatsferlinu hafi verið mætt. Enn er þetta stærsta og hrikalegasta verkfræðiaðgerð sem ráðist hefur verið í á Íslandi og eflaust þótt víðar væri leitað. En Íslendingar eru stórhuga og stórtækir. Það liggur ljóst fyrir. En þeim lætur ekki eins vel að undirbúa hlutina vel og hugsa til langs tíma, svona eins og eina öld fram í tímann.

Ef við reynum að gera okkur í hugarlund hvernig verður umhorfs fyrir norðan Vatnajökul eftir 100 ár, ég get það varla, herra forseti, er ég hrædd um að það verði fremur ófögur sjón.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Suðurl., Drífa Hjartardóttir, gerði það að umtalsefni að víða þætti ferðamönnum gaman að horfa á mannvirki og fylgjast með stórframkvæmdum. Vissulega eru það ýmsir sem hafa gaman af því og hver vill ekki dást að fallegum og vel reistum byggingum, mannvirkjum sem bera miklu hugviti vitni. Ég hélt hins vegar, herra forseti, að Íslendingar hefðu það ekki að sérstöku markmiði í ferðaþjónustu sinni að laða fólk til landsins til þess að skoða mannvirki. Hvað þá uppistöðulón, hvað þá virkjanir.

Ég var stödd í Bandaríkjunum sl. sumar. Þar auglýstu Íslendingar --- ég leyfi mér að orða það þannig að þjóðin hafi staðið öll að því enda hefur það líklega verið meira og minna ríkisstyrkt --- undir slagorðinu ,,Iceland Naturally``. Ísland náttúrlega, af því að það er náttúrulegt, hreint og tært, ósnortið, fallegt og þess vegna eftirsóknarvert.

Og svo ég haldi mig enn við orð hv. þm. Drífu Hjartardóttur þá minntist hún líka á Niagara-fossana á landamærum Kanada og Bandaríkjanna. Vissulega eru það einhverjir mögnuðustu fossar sem hægt er að berja augum. En ég hef komið þangað. Þar er einhver ömurlegasta ferðamannasamkunda sem hægt er að komast á, því miður, herra forseti. Þar hefur náttúran ekki fengið að njóta sín. Þar eru hins vegar sjoppur og spilavíti við hvert fótmál. Ég nefni það bara hér sem dæmi. Auðvitað ætlum við ekki að gera neitt slíkt. Auðvitað stendur það ekki til hér. En þetta hefur víða verið gert annars staðar og við skyldum bara hafa það í huga.

Auðvitað skiptir mestu máli í þessu sambandi, herra forseti, að við vitum hvert við stefnum í orkunýtingu og í ferðaþjónustu af því að þetta tvennt tvinnast svo sannarlega saman fyrir norðan Vatnajökul. Við verðum að reyna að sjá langt fram í tímann og komast að einhvers konar samkomulagi um hvert við viljum stefna, hvernig við viljum nýta landið og í hvaða röð eigi að vinna.

Hér hefur ekkert nýtt komið fram varðandi fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun síðan skipulagsstjóri felldi úrskurð sinn 1. ágúst sl. Þrátt fyrir framhaldsúrskurð hæstv. umhvrh. hefur ekkert það komið fram sem breytir þeirri staðreynd að hér eru á ferðinni stórkostlegustu náttúruspjöll Íslandssögunnar. Ekki hafa verið færð nein rök fyrir því, þó eftir því sé kallað, að þegar til lengdar lætur muni þetta borga sig. Við vitum ekkert um verðmæti landsins sem fer undir þessar framkvæmdir. Við höfum ekki tekið okkur tímann til að klára rammaáætlunina. Við höfum ekki tekið okkur þann tíma sem þarf til þess að móta hér heildstæða stefnumótun um ferðaþjónustu a.m.k. til næstu 50 ára. Meðan svo er, herra forseti, þá er býsna erfitt að taka frv. hæstv. iðnrh. og fagna því sérstaklega.

Vissulega verður það tekið til mjög ítarlegrar umræðu og ég vænti þess að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að frv. verði rætt í hv. iðnn., í umhvn. og í efh.- og viðskn. Best væri ef hægt væri að koma því þannig fyrir, þó að ýmsum kynni að þykja það nýstárlegt, að þessar nefndir funduðu saman. Ekki væri verra ef þær héldu opna fundi, herra forseti. Það mundi a.m.k. halda mönnum við efnið. Það er auðvitað aldrei of seint að fara að ástunda hér almennileg, upplýst og opin vinnubrögð. Ég skora á hæstv. iðnrh. að beita sér fyrir slíku þannig að vinnan við þetta frv. megi alla vega verða þannig að hægt verði að bæta það hér og hvar. Í grunninn er frv. náttúrlega um framkvæmd sem við höfum ekki hugmynd um hvert mun leiða okkur. Grundvallarspurningunum hefur aldrei verið svarað. Þeim var ekki svarað hér í dag. Þeim verður kannski svarað áður en þetta frv. verður afgreitt frá hinu háa Alþingi í vor en það breytir því ekki að niðurstaðan um álverið fæst ekki fyrr en í haust. Fjárfestarnir ráða þessu auðvitað, eins og við vitum öll, þegar á reynir og þegar allt kemur til alls.

Ég ætla að leyfa mér hér í lokin, herra forseti, að vitna til yfirlýsingar sem stjórn Landverndar lét frá sér fara 31. jan. sl. Þar segir, með leyfi herra forseta, um úrskurð hæstv. umhvrh.:

,,Í úrskurði umhverfisráðherra eru sett ýmis skilyrði sem væntanlega draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem fyrirsjáanleg voru í þeim tilögum sem framkvæmdaraðili lagði fram til mats. Áhrif verkefnisins eru þó enn slík að aldrei áður hefur ein framkvæmd haft í för með sér jafnstórfellda röskun á náttúru landsins enda er verið að beisla stóran hluta virkjanlegs vatnsafls landsins. Stjórn Landverndar varar því við því að úrskurðurinn fái fordæmisgildi fyrir mat á umhverfisáhrifum. Slíkt fordæmisgildi gæti torveldað verndun náttúru og landslags á Íslandi.``

Ég vil taka þetta upp hér, herra forseti, þó að ég ætli ekki að gera að umræðuefni úrskurð hæstv. umhvrh., sem féll 20. des. sl. Vissulega hljótum við að þurfa að staldra við og velta fyrir okkur gildi laga um mat á umhverfisáhrifum, sem við settum og ég tók svo sannarlega þátt í hér í maí 2000. Við stöndum frammi fyrir því, herra forseti, að þessi stórfellda framkvæmd, stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, komst í gegnum mat á umhverfisáhrifum, gegnum þau lög og þær reglugerðir sem við settum hér til að reyna að koma í veg fyrir stórfelld náttúruspjöll. Reyndar var það ekki niðurstaða skipulagsstjóra að samþykkja framkvæmdina. Það var niðurstaða umhvrh. sem ber ábyrgð gagnvart umhverfinu meir en nokkur annar í hæstv. ríkisstjórn. Fyrst svo er held ég, herra forseti, að þessi lög séu gölluð. Það þurfum við að hafa í huga við endurskoðunina sem fram fer á þessu ári vænti ég. Lagasetningin hlýtur að þurfa að vera með þeim hætti, það hlýtur að vera vilji löggjafans, að hægt sé með lögum um mat á umhverfisáhrifum að koma í veg fyrir náttúruspjöll. Eða til hvers erum við að setja þessi lög? Fyrst þessi framkvæmd slapp í gegnum nálarauga hæstv. umhvrh. þá er allt hægt, herra forseti. Þá er allt hægt á 21. öldinni uppi á Íslandi.

Það setur að mér ákveðinn beyg. Ég stóð í þeirri góðu trú þegar þessi lög voru sett að þau mundu duga okkur sæmilega en þau dugðu varla í rúmt ár. Ég ætla að láta máli mínu lokið, herra forseti. Niðurstaða mín í þessu máli er einföld. Hún er sú að náttúran þurfi enn að njóta vafans, sérstaklega í ljósi þess að grundvallarspurningum um þessa framkvæmd hefur ekki verið svarað. Spurningum sem spurt hefur verið í allan dag hefur ekki verið svarað. Rammaáætlunin um nýtingu vatnsafls og jarðvarma liggur enn ekki fyrir og mun líklega ekki líta dagsins ljós fyrr en einhvern tíma seint á þessu ári eða jafnvel á því næsta.