Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:05:16 (4773)

2002-02-14 21:05:16# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:05]

Kolbrún Halldórsdóttir (frh.):

Herra forseti. Heldur voru rýr svör hæstv. ráðherra við þeim spurningum sem beint hefur verið til hennar síðan klukkan ellefu í morgun. Af ýmsu er að taka. Til dæmis hefur hæstv. ráðherra ekki svarað neinu varðandi þennan blóðspreng eða þetta óþol sem hæstv. ríkisstjórn er í í þessu máli, ekki heldur neinu varðandi það hvers vegna forgangsröðunin er sú sem raun ber vitni.

Spurningin er enn þá þessi: Kann að vera að ríkisstjórnin sé að plata inn á þjóðina óarðbærum orkusölusamningum? Engin svör frá hæstv. ráðherra. Hvað með fórnina á þessum náttúruminjum sem hér hefur verið fjallað um, náttúruminjar á heimsvísu sem fórnað er fyrir orkusölusamninga sem þjóðin þarf að öllum líkindum að greiða með? Og þegar hæstv. ráðherra heldur því fram að ríkissjóður sé ekki að setja fé í þessa framkvæmd veit hæstv. ráðherra að það er rangt. Eða í hvað fóru 45 milljónirnar sem voru á fjáraukalögum á nýliðnu ári, eyrnamerktar umhverfismati Reyðaráls? Eða hvað um 3 milljarða endurkröfurétt Landsvirkjunar á ríkið ef ekki yrði af framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun? Hvað með alla fjármunina sem markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar, sem heitir einhverju nafni sem ég get aldrei munað, hefur eytt í að laða hingað til lands stóriðjuframleiðendur til að fjárfesta hér í ódýrri orku, orku á útsöluverði? Eru þetta ekki fjármunir úr okkar sameiginlegu sjóðum? Og hvernig getur þá hæstv. ráðherra komið hér eftir þá umræðu sem hefur verið í dag og sagt að ekki séu neinir fjármunir að fara úr ríkissjóði í þessar framkvæmdir?

Þetta er ein stærsta ríkisframkvæmd sem um getur og við það situr. Það er bara þannig. Og af hverju svarar hæstv. ráðherra ekki þeim spurningum sem hér hafa komið varðandi skilyrt verðmætamat? Ætlar hæstv. ráðherra ekkert að segja um verðgildi náttúrunnar, ekki orð? Ekki einu sinni hafa skoðun á þessari aðferð hagfræðinnar sem hagfræðin hefur þó verið að leggja sig í líma við að fullkomna, til að hægt sé að nota hana í því augnamiði að finna út verðgildi lands?

Og hverju svaraði hæstv. ráðherra okkur varðandi auðlindapólitíkina? Hvar er hin samræmda stjórn á nýtingu náttúruauðlindanna? Ekki orð um það.

Það er því alveg eðlilegt að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir skuli hrópa hér á forgangsröðun sem væri eðlilegri en sú forgangsröðun sem hæstv. ríkisstjórn leyfir sér að stilla upp. Ég tek undir orð hv. þm. hvað það varðar, hér rekst hvað á annars horn í forgangsröðuninni og röksemdafærsla ríkisstjórnarinnar stangast á hvað varðar auðlindapólitíkina og hvað varðar náttúruverðmætin. Skýrasta dæmið um það er auðvitað úrskurður hæstv. umhvrh. sem er í meginatriðum sammála allri röksemdafærslu Skipulagsstofnunar en kemst bara að þeirri niðurstöðu að ekki skuli leggjast gegn framkvæmdinni.

Hvað með þá staðreynd að hæstv. umhvrh. skuli leyfa sér að taka arðsemisþáttinn, hina þjóðhagslegu arðsemi, út úr matsferlinu, þann þátt sem var grundvöllur niðurstöðu Landsvirkjunar? Vogarskálarnar frægu sem teikningin er af í matsskýrslu Landsvirkjunar eru þess eðlis að þar eru náttúruspjöllin vegin á móti þjóðhagslegum arði. Skálarnar á myndinni eru í jafnvægi. Hvað gerist þegar hinn þjóðhagslegi ávinningur er tekinn af vogarskálunum? Í minni eðlisfræði mundi önnur vogarskálin, þ.e. sú sem vegur umhverfisáhrifin, detta í gólfið vegna þess að það er ekkert sem vegur umhverfisáhrifin upp.

Hæstv. umhvrh. sagði að svona skyldi það vera. Þessi óhóflegu umhverfisáhrif sem liggja í jörðinni á skálum Landsvirkjunar eru ekki þess virði að fresta þessum framkvæmdum eða leggjast gegn þeim. Þetta er ámælisverð afstaða ríkisstjórnarinnar og það er ámælisvert að hæstv. iðnrh. skuli gleypa allar þessar röksemdir hráar og ætla ekki að svara þeirri gagnrýni sem hefur komið á framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Örlítið hefur verið fjallað um lög um mat á umhverfisáhrifum og þeirri spurningu verið varpað fram hvort þau séu gölluð. Ég tel þau ekki vera gölluð. En ég tel hins vegar áhöld um það hvort hæstv. umhvrh. hafi brotið þau lög í úrskurði sínum þar sem hún felldi niðurstöðu Skipulagsstofnunar úr gildi. Ég tel þau lög góð og gegn og að það sé alveg ljóst til hvers þau voru sett og hvað þau eiga að meta. Það nægir að vitna í varúðarregluna sem Ríó-yfirlýsingin fjallar um og ákveðnar reglugerðir Evrópusambandsins hafa gert okkur að lögleiða. Við eigum að fara eftir meginreglum umhverfisréttar, það fyrirskrifa lögin um mat á umhverfisáhrifum. Það er ekki verið að gera í þessu máli.

Það er auðvitað satt sem hæstv. ráðherra segir, ekki verður allt ,,virkjað sem virkjanlegt er á Íslandi``. En mig langar til að vitna hér, herra forseti, til fundar sem haldinn var í Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands á vegum Landverndar þann 16. okt. árið 1999. Á þeim fundi var fjallað um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og eitt af því áhrifamesta sem kom fram á þeim fundi var umfjöllun um það vatnsafl sem við eigum mögulega virkjanlegt. Á þeim fundi sagði orkumálastjóri Þorkell Helgason að allt virkjanlegt vatnsafl í landinu innibæri 64 teravattstundir alls. Hæstv. ráðherra veit að sjálfsögðu að við erum búin að virkja einar 8 teravattstundir, 8,3 segir á einum stað held ég í plöggunum hennar en 8,6 á öðrum stöðum. Þess má geta að frv. sem við fjöllum um hér og greinargerðin sem kemur frá Orkustofnun og fylgir því er ekki vandaðra plagg en svo að tölur stangast þar á og á fleiri en einum stað eins og hér hefur verið bent á, m.a. í þessu sem ég nefni núna.

Allt virkjanlegt vatnsafl á landinu er sem sagt 64 teravattstundir. Orkumálastjóri sagði á þessum fundi í október 1999 að eftir mat á hagkvæmni virkjunarkosta kæmum við til með að eiga svona 40--45 teravattstundir virkjanlegar í vatnsafli --- af mögulega virkjanlegu vatnsafli eftir mat á hagkvæmni. Síðan sjá menn af svona 1/3 til 1/4 sem er lagður til hliðar vegna umhverfissjónarmiða eða vegna þess að hagkvæmnin gæti hafa verið vanmetin og þá standa eftir 20--30 teravattstundir sem ásættanlegt getur orðið að virkja í vatnsafli. Það er ekki meira. Og samkvæmt þingmáli sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram oftar en einu sinni á hinu háa Alþingi er fjallað um að vetnisvæðing íslenska samfélagsins muni útheimta hátt í 20 teravattstundir. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að rökstyðja að farið sé út í að sækja allt þetta vatnsafl til stóriðju sem virðist vera í pípunum hjá hæstv. ríkisstjórn, þ.e. Reyðaráls, stækkunar Norðuráls og stækkunar Ísals? Hvernig ætlar hún að réttlæta að þarna fari einar 13 teravattstundir raforku í stóriðju ásamt því að hún þykist ætla að setja hér í gang vetnisvæðingu á næstu 30 árum?

Herra forseti. Þetta eru fullkomlega óraunhæfar áætlanir. Og það er auðvitað alveg eðlilegt að þingmenn setji spurningarmerki við þá hluti og það sem kemur fram í þessum plöggum sem okkur hefur verið boðið upp á að skoða.

Og hvaða skynsemi er í því, segir maður enn þá einu sinni, að eftir að Kárahnjúkavirkjun yrði komin á legg og farin að starfa með fullum afköstum yrðu 88% allrar framleiddrar raforku hjá Landsvirkjun framleidd fyrir stóriðju? Hvaða vit er í þessu? Og hvað verður það há prósenta þegar öll hin stóriðjufyrirtækin eru búin að fá allar stækkanirnar sínar? Enn einu sinni, herra forseti: Þetta er glórulaust.

Hv. þm. hafa verið að fá kort frá náttúruunnendum. Ég fékk afar fallegt kort með mynd af Gullfossi og regnbogi skín yfir honum. Á kortinu stendur: ,,Sigríður frá Brattholti bjargaði Gullfossi. Vilt þú bjarga hálendinu norðan Vatnajökuls?`` Ég vil svara bréfritara þessa korts játandi. Ég vil bjarga hálendinu norðan Vatnajökuls. Og þó að ég hafi byrjað baráttu mína fyrir náttúruvernd svæðisins norðan Vatnajökuls án þess að hafa komið á Eyjabakkasvæðið vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því: Vill hún bjarga regnskógunum sem verið er að eyða jafnvel þó að hún hafi kannski aldrei komið þangað?