Verndun hafs og stranda

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:43:23 (4779)

2002-02-14 21:43:23# 127. lþ. 78.2 fundur 492. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:43]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni merkt frv. til laga sem tekur á margvíslegum umhverfisþáttum eins og heitið ber með sér, verndun hafs og stranda. Það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um er einmitt um strendurnar, ekki bara verndun þeirra heldur hreinsun þeirra.

Í frv. er rakið að ýmis mengunarefni geta fallið til. Í 1. gr. segir:

,,Markmið laga þessara er að vernda hafið og strendur landsins gegn mengun og athöfnum sem stofnað geta heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafsins og raskað lífríki þess, spillt umhverfinu ...``

Nú er það svo að meðfram ströndum landsins hrúgast upp alls konar úrgangur, plast, netaúrgangur og sitthvað fleira. Ég sé ekki að í frv. sé tekið á þeim atriðum í verndinni eða hreinsun á ströndunum. Frumvarpið snýr fyrst og fremst, að mér sýnist, að aðgerðum gegn bráðamengun en hefði ekki verið eðlilegt að í frv. væri einmitt tekið víðtækara á mengun strandanna hvað þetta varðar, þ.e. í sambandi við alls konar rusl, plast, netaúrgang og fleira sem rekur á strendur landsins og er mikið verk að þrífa og hreinsa upp en virðist núna bara vera fyrst og fremst á ábyrgð landeiganda að gera án þess að þar séu skipulegar aðgerðir til. Hefði ekki verið eðlilegt að tekið væri á þessu í frv.?