Umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:04:08 (4790)

2002-02-18 15:04:08# 127. lþ. 79.91 fundur 339#B umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ef þessar tafir væru ekki núna værum við að ræða um málefni einkavæðingarnefndar að kröfu hv. þm. Kristjáns Möllers. Í dag er utandagskrárumræða um einn þátt í störfum eða starfskjörum einkavæðingarnefndar sem hv. þm. Kristján Möller hefur gert að umtalsefni og ég mun vera til andsvara í því sambandi.

Það er hins vegar þannig, og það þekkja menn, að þegar kemur að tilteknum einstökum fyrirtækjum og málefnum þeirra er það viðkomandi fagráðherra sem er til andsvara varðandi þau málefni en ekki forsrh. þó að hann sé formaður einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar, þ.e. ráðherranefndar um einkavæðingu. Þannig er þetta. Til að mynda þegar málefni Fjárfestingarbankans voru til umræðu var hæstv. viðskrh. til svara um þau mál. Þegar málefni SR-mjöls voru til umræðu var hæstv. sjútvrh. fyrir svörum o.s.frv. Það er aðeins ef málin snúast almennt um einkavæðingu að hægt er að tala um það við forsrh. Ef spurt er um starfskjör eða launakjör einkavæðingarnefndarmanna þá er sjálfsagt að tala um það við forsrh.

Þetta verða menn að skilja gagnvart öðrum hlutum. Ella væri nánast hægt í utandagskrárumræðum að tala við forsrh. um hvaða málefni hvaða fagráðherra sem er. Stjórnskipun landsins byggir ekki á því. Uppbygging Stjórnarráðsins byggir ekki á því. Þess vegna er eðlilega með þetta farið. Á eftir verður einmitt umræða um þátt sem forsrh. ber að eiga orðaskipti við þingmenn um og hv. þm. Kristján Möller hefur réttilega beint því máli til mín.