Umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:05:49 (4791)

2002-02-18 15:05:49# 127. lþ. 79.91 fundur 339#B umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. 7. þm. Reykv. fór ég fram á utandagskrárumræðu um sölu Símans í ljósi nýorðinna atburða. Ég vildi beina máli mínu til hæstv. forsrh. Ástæðan var afskaplega einföld. Tíðindi umliðinna daga eru á þann veg að þau skarast á verkefnasviði fjölmargra ráðherra. Því var einsýnt að taka þyrfti tal við hæstv. forsrh., oddvita ríkisstjórnarinnar, sem ber ábyrgð á ráðherrum ríkisstjórnarinnar og ræða málið, ekki síst út frá pólitískum forsendum. Hann hefur síðan skýrt sjónarmið sín í þessum efnum og ekki meira um það.

Hinu breytum við auðvitað ekki að staða þessara mála á síðustu og verstu tímum, verð ég að segja, gera það að verkum að hæstv. forsrh. verður hvort sem honum líkar það betur eða verr að skýra sjónarmið ríkisstjórnar sinnar sinnar til málsins, m.a. svara spurningum sem vaknað hafa og nokkrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa svarað. Er verið að reyna að selja Símann enn þann dag í dag eða hefur sölutilraunum verið slegið á frest út þetta kjörtímabil, eins og hæstv. utanrrh. hefur látið í veðri vaka og sagt berum orðum?

Einnig er mikilvægt að átta sig á hvar skörunin er á milli valdsviðs hæstv. samgrh. og hæstv. forsrh. í þessum málaflokki. Það hefur ítrekað komið í ljós að þar hefur skörun orðið nokkur í persónum og verkefnum, nú síðast í verkefnum stjórnarformannsins, Friðriks Pálssonar, sem virðist að því er fram hefur komið í fréttum frá laun frá tveimur stöðum, annars vegar sem stjórnarformaður og hins vegar sem ráðgjafi við söluna á Símanum sjálfum. Við þurfum að fá upplýsingar um mál af þessum toga og því miður er það þannig, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að forræðið er að síðustu í höndum forsrh. en ekki einstakra fagráðherra.