Umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:12:47 (4795)

2002-02-18 15:12:47# 127. lþ. 79.91 fundur 339#B umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það gerðist á Alþingi í byrjun desembermánaðar sl. í tengslum við afgreiðslu fjáraukalagafrv. að forsrn. neitaði Alþingi og fjárln. upplýsingum um sundurliðun kostnaðar vegna einkavæðingar sem sótt var um aukafjárveitingu til upp á 300 millj. kr. Með eftirgangsmunum fékk fjárln. að sjá hluta af umbeðnum gögnum og var þá bundin trúnaði og aðrir þingmenn áttu þess ekki kost að taka afstöðu til málsins á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um skiptingu þessa kostnaðar.

Daginn eftir að þessar umræður urðu á Alþingi, 4. des., kærðu fréttamenn Stöðvar 2 þessa synjun forsrn., sem að þeim sneri í því tilviki, um umbeðnar upplýsingar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál felldi svo úrskurð 8. febrúar sl. þar sem forsrn. er knúið til að láta umbeðnar upplýsingar af hendi. Þá er sú sérkennilega staða komin upp, herra forseti, að á grundvelli upplýsingalaga geta fjölmiðlar eða almenningur sótt sér, að því er virðist, ríkari rétt en alþingismenn við afgreiðslu fjáraukalaga hafa, ekki bara að mati forsrn. heldur líka, því miður, virðulegs forseta Alþingis sem tók þátt í umræðum um þessi mál og sagði m.a., með leyfi, svo vitnað sé í þingtíðindi:

,,Ég lít svo á að niðurstaða forsrh. sé rétt [þ.e. að synja umbeðnum upplýsingum] þar sem ekki eru nein ákvæði í þingsköpum um þagnarskyldu annarra nefnda sambærileg við þau sem eru um utanrmn.``

Rökin voru þau að ekki væri hægt að afhenda Alþingi upplýsingarnar af því að aðrar nefndir en utanrmn. væru ekki bundnar sérstökum trúnaði.

Nú hefur úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að réttur almennings til upplýsinga sé svo ríkur í tilvikum sem þessum að hvorki trúnaður sem ráðuneyti hefur heitið einstökum aðilum né mögulegur skaði sem af því geti hlotist að birta upplýsingarnar eigi að koma í veg fyrir að það sé gert.

Ég tel óhjákvæmilegt, herra forseti, að bæði forsrn. og forsn. Alþingis bregðist við þessum úrskurði og setji skorður við ítrekuðum tilraunum framkvæmdarvaldsins til að hafa þennan rétt af alþingismönnum.