Umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:15:22 (4796)

2002-02-18 15:15:22# 127. lþ. 79.91 fundur 339#B umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég sit í fjárln. fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð og í haust þegar beiðni kom frá forsrn. um að bætt yrði 300 millj. kr. á fjáraukalög sl. árs til þess að greiða kostnað við störf einkavæðingarnefndar var þess óskað að það yrði skýrt nánar og greint frá því í hverju þessi fjárveiting væri fólgin svo sem venja er þegar slíkar fjárveitingabeiðnir koma því að þetta er á fjáraukalögum.

Þegar leitað var eftir svari frá forsrn. kom þaðan einungis svar um að þetta væri trúnaðarmál, þetta væri viðskiptaleyndarmál og það mætti ekki birta Alþingi. Leitað var eftir stuðningi á Alþingi. Fyrst var leitað eftir stuðningi formanns og meiri hluta fjárln. Það gekk ekki upp og ekki fékkst viðunandi svar þó að þessir aðilar beittu sér. Leitað var eftir stuðningi forseta þingsins, forseta Alþingis um að einnig hann eða embættið og forsrn. beitti sér fyrir því að alþingismenn fengju þær upplýsingar sem þarna var beðið um og að okkar mati var fyllilega eðlilegt og réttmætt að yrðu birtar hér.

Hæstv. forseti þingsins veitti þessu máli ekki þann stuðning að umbeðnar upplýsingar bærust inn í þingið.

Virðulegi forseti. Ég beini því hér til hæstv. forsn. og forsrh.: Hvernig ætla þessi hv. embætti að koma að máli og leiðrétta þann yfirgang sem hv. Alþingi hefur verið beitt og hvernig ætlar hæstv. forseti og forsrn. að bregðast við, koma hér með afsökunarbeiðni og bregðast við, þannig að vænta megi betri og öruggari leiðsagnar og vinnubragða í þessu máli og viðlíka málum?