Umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:17:40 (4797)

2002-02-18 15:17:40# 127. lþ. 79.91 fundur 339#B umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að vekja sérstaka atyhgli á þessu máli. Það var rétt sem fram kom í máli hv. þm. að það var í fjárln. sem ég óskaði eftir því að fá upplýsingar um ósk um 300 millj. við lið sem var á fjárlögum upp á rúmar 15 millj. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir var ekki orðið við því af hálfu forsrn. að veita þessar upplýsingar.

Síðan gerist það fjölmiðill kærir málið og fær úrskurð og því er það að gerast nú hér enn einu sinni að fjölmiðlar fá upplýsingar sem Alþingi er neitað um. Í þessu tilfelli var fjárln. neitað um upplýsingarnar áður en fjáraukalög voru samþykkt.

Herra forseti. Ýmislegt vekur sérstaka athygli í þessu máli til viðbótar því að nú eru það fjölmiðlar og almenningur sem virðast hafa ríkari rétt en við alþingismenn til að fá upplýsingar hjá framkvæmdarvaldinu og það er það sem kemur fram í þessum upplýsingum sem Stöð 2 er búin að fá í hendur.

Svo virðist sem í forsrn. séu ekki til sundurliðaðar upplýsingar um það hvernig ætlunin var að ráðstafa þessum 300 millj. Það virðist því vera svo að vinnubrögðin í forsrn. séu þannig að tekið sé hrátt við upplýsingum frá nefndum sem eru starfandi á vegum ráðuneytisins. Það geta ekki talist eðlileg vinnubrögð, herra forseti, að ráðuneytið taki þannig upplýsingar hráar frá nefndinni án þess að óska eftir frekari upplýsingum.

Herra forseti. Nú er það að sjálfsögðu skiljanlegt hvers vegna forsrn. gat ekki svarað fyrirspurnum okkar um það hvernig ætlunin væri að ráðstafa þessum 300 millj. Það var sem sagt eingöngu einkavæðingarnefndar að ákvarða hvernig með þær skyldi farið og við höfum fengið slíkar upplýsingar nú á seinustu dögum að það er ekki skrýtið þó að menn hafi talið það eðlilegt að reyna að fela eða draga í lengstu lög að gefa upplýsingar um það hvernig þessi hópur hefur ráðstafað almannafé.