Störf og starfskjör einkavæðingarnefndar

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:35:20 (4804)

2002-02-18 15:35:20# 127. lþ. 79.94 fundur 342#B störf og starfskjör einkavæðingarnefndar# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég er hissa á þessum síðustu orðum hv. þm. vegna þess að í því svari sem ég veitti honum var gengið lengra en þær reglur knýja á um og það veit hv. þm. Þar var engu haldið til baka. Þetta var því ósanngjarn punktur í restina en hv. þm. gat ekki stillt sig.

Þessi fyrirspurn hér er í tengslum við skriflega fyrirspurn sem hv. þm. setti fram fyrir alllöngu síðan og hefur, eins og hann sagði réttilega frá, dregist að þessi umræða hafi getað orðið og er við okkur báða að sakast, ef einhvern, í því samhengi. En ég vil svara þessu með nokkrum orðum.

Allt frá því að framkvæmdanefnd um einkavæðingu hóf störf hafa verið sjálfstætt starfandi sérfræðingar í nefndinni og þeir hafa einnig sent inn reikning fyrir þeirri vinnu sinni sem er umfram þá tíma sem áætlaðir eru og eru jafnaðartímar. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við það sem almennt tíðkast um aðkeypta vinnu í nefndum þannig að sjálfstætt starfandi sérfræðingar taka ekki við þóknun samkvæmt úrskurði þóknunarnefndar af augljósum ástæðum. Þannig hafa Hreinn Loftsson, Jón Sveinsson og Sævar Þór Sigurgeirsson allir tekið þóknun með þessum hætti á starfstíma nefndarinnar en Steingrímur Ari Arason hefur ekki tekið þá þóknun á meðan hann var í starfi á vegum ráðuneytisins vegna þeirra reglna sem um það gilda. Samkvæmt kerfinu hefur sem sagt frá upphafi verið greidd föst þóknun vikulega fyrir fundasetu og undirbúning funda eins og venjulegt er, og þá þrír tímar hjá nefndarmönnum en fimm tímar hjá formanninum. Síðan hafa nefndarmenn ítrekað bent á að vinnuframlag þeirra --- það þekkja menn reyndar --- er mun meira en þessum tímafjölda nemur. Til viðbótar föstum greiðslum fyrir fundasetu hefur því verið greitt fyrir ýmis verkefni sem nefndarmenn hafa þurft að vinna milli funda. Má þar nefna fundi með forsvarsmönnum fyrirtækja sem verið er að einkavæða, fundi með fjármálafyrirtækjum, ferðalög á fundi og þess háttar, samningafundi með kaupendum, skýrslugerð, undirbúning kaupsamninga og allt þess háttar. Fyrir þessa vinnu hefur verið greitt sérstaklega í samræmi við unnar stundir. Hafa nefndarmenn skilað reikningum vegna þessara starfa.

Hv. þm. sagði hér, og hefur sagt ítrekað áður, og ég held að það sé ekki viðeigandi að hann segi það um þessa ágætu menn sem þarna eiga hlut að máli, að þeir hafi verið að kaupa sérfræðiþjónustu af sjálfum sér. Þetta er algjörlega rangt og hv. þm. veit það. Þegar þessir menn eru valdir til starfa í einkavæðingarnefndinni eru þeir valdir af því að þeir búa yfir sérfræðiþekkingu. Þeir reka allir sínar skrifstofur. Þeir hafa ekki skrifstofu eins og þingmenn og ráðherrar þar sem séð er fyrir öllum kostnaði, hita og rafmagni, vélritunaraðstöðu og þess háttar. Allt þetta þarf að ganga þó að þessir menn séu á fundum annars staðar. Þetta er útseld vinna. Ef menn lesa nýjasta tímarit lögfræðinga má sjá að menn telja ríkið hafa hlunnfarið þá menn sem þannig starfa því að útseldur taxti ætti að vera í kringum 9.000--9.500 kr. á tímann vegna þess sem þessir menn bera. Þeir eru settir í nefndina sem sérfræðingar. Þegar vinna þeirra, hvort sem það er fundarseta eða annað, fer fram úr þeim tíma sem ákveðinn hafði verið, 3--5 tímar, fá þeir auknar greiðslur sem því nemur, sem sérfræðingar. Þeir eru ekki að ákveða að kaupa sér sérfræðivinnu. Þetta er algjör útúrsnúningur og hv. þm. er svo vel að sér eftir störf í sveitarstjórnum og víðar að hann veit það vel. Þessir menn eru ekki að semja við sjálfa sig eins og í því leikriti sem hann bjó til. Það var reyndar ekki mjög gott leikrit --- það get ég dæmt um --- sem hann setti á svið í þessum stól. Þessir menn eru sem sagt ráðnir til starfa sem sérfræðingar vegna þess að þeir hafa sérfræðiþekkingu og þeir verða að fara út úr fyrirtækjum sínum til að vinna þessi störf. Fyrirtækin bera kostnað engu að síður og auðvitað verður þetta að vera útseld greiðsla og ekki mögulegt að hafa þetta öðruvísi.

Varðandi það hvort þessir menn hafi fengið fyrirmæli um að taka ekki þátt í kaupum á hlutabréfum er mér ekki kunnugt um að svo sé, og ég veit ekki hvort það er svindl að ég keypti til að mynda sjálfur 100 þús. kr. í Símanum. Ég býst við að það mundi kannski flokkast undir að maður hafi verið bjartsýnn miðað við að allir töluðu um að verðið á Símanum væri allt of hátt. A.m.k. hef ég enn þann dag í dag ekki grætt á þessu og hafði engar aðrar upplýsingar en þær sem allir sögðu, að þetta væri allt of hátt, m.a. menn hér í þingsalnum. Ég vona að fleiri í salnum hafi tekið sama kost og ég gerði. Ég taldi mér skylt að sýna lit í þessum efnum en hafði ekki efni á meiru en þessu. (Gripið fram í. ) Á hvaða verði, hv. þm.? Ég tel að mennirnir hafi unnið mjög samviskusamlega að þessum störfum enda mjög hæfir og góðir menn. Þó að salan hafi ekki gengið fram lýtur það ferli öðrum lögmálum. Það lýtur aðallega þeim lögmálum að við viljum ekki selja þetta fyrirtæki nema við fáum það verð fyrir sem við viljum.

Gagnvart þessum 300 millj. sem voru nefndar, og hafa oft verið nefndar áður, er ljóst að miðað við horfur eins og þær eru í dag munu þessar greiðslur ekki allar koma til. Þetta verður ódýrara en þarna var gert ráð fyrir, mun ódýrara eftir því sem ég best veit um þessar mundir.